Eignarhaldsfélagið Sunnunes ehf. sem er í jafnri eigu Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, og Jóns Björnssonar, forstjóra Veritas, hagnaðist um 435 milljónir króna á síðasta ári. Eignir félagsins, sem er skuldlaust, námu 640 milljónum króna í lok síðasta árs.

Sunnunes á 25% hlut í Var ehf. sem átti 34% hlut í þremur fyrirtækjum á auglýsingamarkaði - Billboard ehf., BBI ehf. og Dengsa ehf. - sem voru seld til Símans í tæplega 5,2 milljarða króna viðskiptum í byrjun síðasta árs. Sunnunes átti þannig 8,5% óbeinan hlut í fyrirtækjunum þremur sem voru seld til Símans.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í maí ákvað Var ehf. að greiða út 800 milljónir króna í arð til hluthafa í ár eftir að hafa hagnast um meira en 1,5 milljarða króna árinu 2024.

Greiða út arð í fyrsta sinn

Tekjur Sunnuness á síðasta ári námu 442 milljónum króna en þar af voru hlutdeildartekjur 390 milljónir króna sem má rekja til hlutdeildar í afkomu Var ehf.

Í ársreikningi Sunnuness kemur fram að félagið hafi greitt út 80 milljónir króna í arð á síðasta ári og félagið hyggst greiða út 40 milljónir króna í arð á þessu ári. Um er að ræða fyrstu arðgreiðslur félagsins.

Viðskiptablaðið greindi frá hlutdeild Höllu í ofangreindri fyrirtækjasölu til Símans í aðdraganda síðustu forsetakosninga sem fóru fram 1. júní 2024.

Halla sagðist vera með stóran hluta af persónulegum sparnaði sínum bundinn í Sunnunesi sem var stofnað árið 2014. Hún fjárfesti í félaginu í kjölfar ‏þess að hún seldi hlut sinn í Auði Capital, fjármálafyrirtæki sem hún stofnaði árið 2007 ásamt Kristínu Pétursdóttur.

Halla sagði Sunnunes einkum hafa staðið í litlum fjárfestingum í óskráðum félögum og bætti við að Jón Björnsson stýri Sunnunesi og fjárfestingum. Hún hefði enga aðkomu haft að rekstri Sunnuness.

„Hann hefur tekið allar ákvarðanir og stýrt öllu þar, af því að ég er bara búinn að vera í öðru - að reyna að breyta heiminum. Þannig að ég hef ekkert verið að skipta mér af þessu,“ sagði Halla í samtali við Viðskiptablaðið í lok maí 2024.

Áður en Halla tók við embætti forseta Íslands í fyrra, eftir að unnið forsetakosningarnar með 34% greiddra atkvæða, hafði hún starfað í sex ár sem forstjóri B Team þar sem hún vann víða um heima að sjálfbærni, jafnrétti og ábyrgð í forystu. Á kosningasíðu Höllu sagði að B Team vinni með fyrirtækjastjórnendum og stjórnmálaleiðtogum að bættu siðferði. Einnig séu lagðar ríkar áherslur á réttlát og gagnsæ viðskipti og efnahag.