Eitt af stærstu og þekktustu skráðu fyrirtækjum Danmerkur, flutningarisinn AP Møller-Mærsk, gæti innan fárra ára horfið af kauphöllinni í Kaupmannahöfn.
Þetta segja fjárfestar og markaðsaðilar í samtali við Børsen, en þeir benda á að fjölskyldufyrirtækið AP Møller Holding og tengdir sjóðir séu smám saman að auka eignarhlut sinn með kerfisbundnum hlutabréfaendurkaupum.
Hingað til hefur verið venjan að þegar Mærsk hefur keypt eigin hluti til baka hafi AP Møller Holding og sjóðirnir á bak við fyrirtækið selt hluti í hlutfalli við endurkaupin. Þannig hafa þeir haldið sömu eignarhlutdeild.
En nú eru eigendur ekki lengur að selja á móti.
Í endurkaupaáætlun sem hófst í febrúar sl. hefur AP Møller Holding í fyrsta sinn ekki selt á móti.
Það hefur vakið spurningar um hvort fyrirtækið stefni að því að eignast öll hlutabréfin og taka Mærsk af markaði.
Í dag eiga tengdir aðilar félagsins um 55,4% af öllu hlutafé og fara með 72,5% atkvæðisrétt, en ef endurkaupin halda áfram á sama hraða verður eignarhluturinn kominn yfir 63% í febrúar 2026, samkvæmt útreikningum danska hlutabréfagreinandans Michaels West Hybholt.
Mærsk kaupir nú eigin hluti fyrir 14,4 milljarða danskra króna á meðan aðeins 38,4% hlutabréfa eru í frjálsu flotinu á markaði.
Það þýðir að um 15% af öllum hlutabréfum í frjálsa flotanu hverfa á einu ári.
„Ég hef aldrei séð svona öflug endurkaup áður,“ segir Hybholt sem á sjálfur hlutabréf í Mærsk.
Hann bendir á að ef þetta haldi áfram muni Mærsk hverfa af markaði á næstu árum – nema nýr stór fjárfestir komi inn og kaupi upp síðustu hluti.
Engin staðfesting frá fyrirtækinu
AP Møller Holding hefur hvorki staðfest né neitað áformum um afskráningu.
Fjárfestar telja þó að ef fyrirtækið fer af markaði geti það starfað frjálsari hendi, líkt og keppinautar á borð við MSC og CMA CGM sem eru óskráð fyrirtæki.
„Þegar markaðurinn metur Mærsk undir raunvirði eigna sinna er spurning hvort skráningin hafi yfirleitt gildi,“ segir Hybholt.
Fjárfestar eins og Christian Klarskov og Johnny Madsen segja að ferlið gæti tekið mörg ár en það sé ekki ólíklegt að Mærsk verði tekið af markaði ef endurkaupin halda áfram af sama krafti.
Mærsk hefur á síðustu árum breytt sér í hreint flutninga- og flutningsmiðlunarfyrirtæki og selt eða aðskilið margar óskyldar einingar, svo sem Maersk Oil, Maersk Tankers og nýlega Svitzer. Sumir telja að næsta skref gæti verið að selja Maersk Terminals frá og að lokum kaupa allt fyrirtækið af markaði.
En eins og fjárfestar leggja áherslu á þá eru þetta aðeins getgátur eins og staðan er núna.