Eitt af stærstu og þekktustu skráðu fyrir­tækjum Dan­merkur, flutninga­risinn AP Møller-Mærsk, gæti innan fárra ára horfið af kaup­höllinni í Kaup­manna­höfn.

Þetta segja fjár­festar og markaðsaðilar í samtali við Børsen, en þeir benda á að fjöl­skyldu­fyrir­tækið AP Møller Holding og tengdir sjóðir séu smám saman að auka eignar­hlut sinn með kerfis­bundnum hluta­bréfa­endur­kaupum.

Hingað til hefur verið venjan að þegar Mærsk hefur keypt eigin hluti til baka hafi AP Møller Holding og sjóðirnir á bak við fyrir­tækið selt hluti í hlut­falli við endur­kaupin. Þannig hafa þeir haldið sömu eignar­hlut­deild.

En nú eru eig­endur ekki lengur að selja á móti.

Í endur­kaupaáætlun sem hófst í febrúar sl. hefur AP Møller Holding í fyrsta sinn ekki selt á móti.

Það hefur vakið spurningar um hvort fyrir­tækið stefni að því að eignast öll hluta­bréfin og taka Mærsk af markaði.

Í dag eiga tengdir aðilar félagsins um 55,4% af öllu hluta­fé og fara með 72,5% at­kvæðis­rétt, en ef endur­kaupin halda áfram á sama hraða verður eignar­hluturinn kominn yfir 63% í febrúar 2026, sam­kvæmt út­reikningum danska hluta­bréfa­greinandans Michaels West Hyb­holt.

Mærsk kaupir nú eigin hluti fyrir 14,4 milljarða danskra króna á meðan aðeins 38,4% hluta­bréfa eru í frjálsu flotinu á markaði.

Það þýðir að um 15% af öllum hluta­bréfum í frjálsa flotanu hverfa á einu ári.

„Ég hef aldrei séð svona öflug endur­kaup áður,“ segir Hyb­holt sem á sjálfur hluta­bréf í Mærsk.

Hann bendir á að ef þetta haldi áfram muni Mærsk hverfa af markaði á næstu árum – nema nýr stór fjár­festir komi inn og kaupi upp síðustu hluti.

Engin stað­festing frá fyrir­tækinu

AP Møller Holding hefur hvorki stað­fest né neitað áformum um af­skráningu.

Fjár­festar telja þó að ef fyrir­tækið fer af markaði geti það starfað frjálsari hendi, líkt og keppi­nautar á borð við MSC og CMA CGM sem eru óskráð fyrir­tæki.

„Þegar markaðurinn metur Mærsk undir raun­virði eigna sinna er spurning hvort skráningin hafi yfir­leitt gildi,“ segir Hyb­holt.

Fjár­festar eins og Christian Klar­skov og Johnny Madsen segja að ferlið gæti tekið mörg ár en það sé ekki ólík­legt að Mærsk verði tekið af markaði ef endur­kaupin halda áfram af sama krafti.

Mærsk hefur á síðustu árum breytt sér í hreint flutninga- og flutnings­miðlunar­fyrir­tæki og selt eða aðskilið margar óskyldar einingar, svo sem Maersk Oil, Maersk Tan­kers og ný­lega Svitzer. Sumir telja að næsta skref gæti verið að selja Maersk Terminals frá og að lokum kaupa allt fyrir­tækið af markaði.

En eins og fjár­festar leggja áherslu á þá eru þetta aðeins get­gátur eins og staðan er núna.