Í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá stofnun Ethereum hvetur Financial Times til yfirvegaðrar umræðu um rafmyntir.
Þrátt fyrir gríðarlegar sveiflur, hneykslismál og lögbrot sýnir reynslan að hvorki svartsýni né ofmat dugar til skilja rafmyntir.
Í grein eftir Gillian Tett, leiðarahöfund og ritstjóri efnahagsmála hjá Financial Times, er dregin fram fimm mikilvæg sjónarmið sem fjárfestar ættu að hafa í huga við mat á rafmyntum og þróun þeirra í fjármálakerfinu.
1. Rafmyntir eru ekki allar eins
Ein algengustu mistök gagnrýnenda rafmynta eru að líta á þær sem einsleita heild. Raunin er önnur.
Bitcoin er einföld eign, gjarnan líkt við stafrænt gull, með það meginhlutverk að geyma verðmæti.
Ethereum er aftur á móti tæknivettvangur sem býður upp á sjálfvirka samninga og forritun. Aðrir flokkar, svo sem meme-myntir og stöðugmyntir, bjóða upp á mismunandi áhættu og eðli: þær fyrrnefndu byggja alfarið á vangaveltum en þær síðarnefndu eru studdar undirliggjandi eignum.
Fjárfestar verða því að greina á milli rafmynta í ljósi eðlis þeirra og hlutverks – líkt og þeir gera með aðrar fjármálaeignir.
2. Ekki treysta öfgamönnum
Fyrir áratug héldu margir boðberar stafræns fjármálakerfis því fram að rafmyntir myndu kollvarpa hefðbundnum banka- og greiðslumiðlunarkerfum.
Sú spá hefur ekki ræst: tæknin hefur reynst dýr, flókin í notkun, orkufrek og allt of sveiflukennd til að teljast áreiðanleg verðmæti. Fjöldi mála sem tengjast svikum og ólögmætri starfsemi hefur auk þess grafið undan trúverðugleika greinarinnar.
Á sama tíma hafa þeir sem sögðu rafmyntir vera tímabundið æði haft ekki síður rangt fyrir sér. Þvert á móti hefur markaðsvirði stærstu rafmyntanna rokið upp á ný og notkun svokallaðra stöðugmynta er orðin sambærileg við útbreiddustu greiðslukerfi heims, á borð við Visa.
Reynslan sýnir því að hvorugur hópur, hvorki talsmenn byltingarinnar né spámenn fallsins, hefur haft rétt fyrir sér í heild. Hvort tveggja byggðist á einföldun sem stenst ekki raunsæja skoðun.
3. Hefðbundin fjármálakerfi eru mætt á vettvang
Það sem einu sinni var hugsað sem mótvægi gegn gömlu fjármálastofnunum er í dag að verða hluti þeirra.
Stærstu sjóðastýringarfyrirtæki heims, þar á meðal BlackRock, Fidelity og Vanguard, bjóða nú upp á rafmyntatengda fjárfestingarkosti. Bankar á borð við JPMorgan þróa jafnframt sín eigin greiðslukerfi með blockchain-tækni.
Fyrir fjárfesta skiptir þetta máli. Rafmyntir eru ekki lengur jaðarviðfangsefni fyrir áhugasama tækninörda heldur sífellt samþættari við alþjóðlegt fjármálakerfi.
4. Alþjóðapólitískt samhengi rafmynta er að breytast
Lengi vel átti þróun rafmynta sér stað utan Bandaríkjanna, einkum í Asíu, en nú hefur áherslan færst: bandarísk stjórnvöld vilja taka frumkvæði og draga starfsemi rafmyntageirans til sín.
Í grein Tett kemur fram að bæði pólitísk áhrif, þar á meðal fjárhagslegur stuðningur rafmyntafélaga við kosningabaráttu Donalds Trump, og stefnumótandi markmið Bandaríkjanna ráði þar för.
Bandaríska fjármálaráðuneytið lítur nú á stöðugleikamyntir, studdar af dollar, sem möguleika til að efla eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum og styrkja stöðu dollars sem alþjóðlegs gjaldmiðils.
Þessi þróun gæti orðið til þess að móta nýja alþjóðlega fjármálareglu, ekki ósvipað því sem Bretton Woods-samkomulagið gerði á sínum tíma.
5. Hugsanleg hliðaráhrif eru áhugaverðari en eignirnar sjálfar
Að lokum bendir Tett á að tæknin sem liggur að baki rafmyntum, dreift gagnakerfi (e. distributed ledgers), geti haft áhrif langt umfram beinan fjárhagslegan ávinning.
Tæknin kallar á nýjan hugsunarhátt, þar sem spurt er hvort við þurfum endilega að byggja greiðslukerfi heimsins á stofnunum eins og SWIFT eða hvort yfirráð dollarsins séu ófrávíkjanleg.
Slík þróun opnar á spurningar um sjálfstæði ríkja, dreifingu fjármagns og nýja möguleika í milliríkjaviðskiptum.
Í grein sinni segir Tett að hún vilji hvorki verja né óttast rafmyntir en segir að lokum að í fjárfestingum, líkt og í lífinu, sé sjaldan hægt að fullyrða neitt með algjörri vissu.
Raunsætt mat og greining eru mikilvægari en háværar fullyrðingar; það á líka við um rafmyntir.