Fjár­mála­markaðir vestan­hafs hafa verið í miklu skriði á við undan­farna mánuði, en sí­fellt fleiri greiningaraðilar vara nú við því að hættu­merki séu farin að birtast.

Hröð hækkun áhættu­samra hluta­bréfa, mikill vöxtur raf­mynta­ og aukin áhættu­taka meðal fjár­festa minna á fyrri markaðs­bólur.

Í um­fjöllun The Wall Street Journal eru nefndar fimm lykilvís­bendingar sem fjár­festar fylgjast náið með sem gætu gefið til kynna að bólu­myndun sé í gangi.

1. Áhættusöm hluta­bréf hækka óeðli­lega hratt

Hlut­falls­lega lítil og óhagnaðar­drifin fyrir­tæki hafa hækkað veru­lega undan­farið.

Fyrir­tæki á borð við Opendoor Technologies, sem sér­hæfir sig í fast­eigna­við­skiptum, hefur hækkað um 377% á einum mánuði, þrátt fyrir að fast­eigna­markaður í Bandaríkjunum sé nær kyrr­stæður.

Svipaða þróun má sjá í hluta­bréfum verslunar­keðjunnar Kohl’s, GoPro og Krispy Kreme.

Flest þessi félög hafa annaðhvort glímt við tap­rekstur eða verið á undan­haldi í sínum geirum en samt eru þau nú í miklum metum hjá fjár­festum.

Sam­kvæmt WSJ er hér verið að fjár­festa út frá væntingum um framtíðar­vöxt fremur en undir­liggjandi rekstrar­stöðu.

Sam­kvæmt greiningar­fyrir­tækinu Bespoke hafa 33 félög í Rus­sell 3000-vísitölunni þre­faldast í verði frá því í apríl.

Aðeins sex þeirra hafa skilað hagnaði á síðustu 12 mánuðum.

2. Verð á raf­myntum eykst

Bitcoin og Et­hereum hafa hækkað tölu­vert á síðustu vikum, einkum vegna stuðnings­ Bandaríkjaforseta við raf­mynta­markaðinn og aukins áhuga stærri fagfjárfesta.

Það sem vekur sér­staka at­hygli nú er að sí­fellt fleiri skráð félög eru farin að kaupa rafmyntir sem hluta af fjár­festinga­stefnu sinni

Þar ber helst að nefna MicroStra­tegy, Riot Plat­forms og Trump Media & Technology Group, sem nýverið til­kynnti að félagið hefði keypt raf­myntir fyrir 2 milljarða Bandaríkja­dala.

Gagn­rýn­endur vara við að slík stefna geti aukið viðkvæmni á raf­mynta­markaði, þar sem sveiflur í verði geti leitt til keðju­verkandi viðbragða í hluta­bréfa­verði þessara félaga.

3. Hækkanir á víð og dreif

Hækkanir undan­farna mánuði hafa náð út fyrir stóru tækni­fyrir­tækin áður fyrr voru megin­drif­kraftur þess að hlutabréfavísitölur voru á uppleið.

Hækkanirnar á markaði ná nú til allt frá fjár­mála­fyrir­tækjum yfir í iðn­fyrir­tæki.

Til dæmis hefur hluta­bréfa­vísi­talan KBW Nas­daq Bank Index hækkað um 7% á einum mánuði, og fyrir­tæki eins og GE Vern­ova og Tra­de Desk hafa hækkað um yfir 20%.

Þessi breiddar­aukning bendir til þess að hækkunin á markaði sé víðtækari og geti þannig virst heil­brigð. En á sama tíma eru verðmats­hlut­föll komin upp úr öllu valdi.

4. Verðmat hluta­bréfa er orðið mjög hátt

Svo­kallað áhættuálag (e. equity risk premium), sem mælir ávinning af því að fjár­festa í hluta­bréfum í stað ríkis­skulda­bréfa, er nú nánast horfið.

Þetta þýðir að fjár­festar fá í reynd ekki mikla ávöxtun fyrir að taka meiri áhættu. Slíkt ástand er oft túlkað sem vís­bending um að markaðurinn sé of hátt verðlagður.

5. Vinnu­markaður sýnir veik­leika­merki

Þrátt fyrir að ný­legir tollar hafi vakið áhyggjur af verðbólgu og hægari vexti hefur hag­kerfið haldist traust.

Vísi­tala neyslu­verðs hefur aðeins hækkað lítil­lega og lands­fram­leiðsla heldur stöðugri.

Hins vegar er vinnu­markaðurinn vestan­hafs byrjaður að kólna. Ráðningar í einka­geiranum hafa dregist saman, at­vinnu­sköpun er minni en áður og nýút­skrifaðir háskóla­nemar eiga erfitt með að finna störf. Sam­kvæmt Calli­e Cox hjá Rit­holtz Wealth Mana­gement er þetta al­var­legt merki:

„Þegar vinnu­markaðurinn byrjar að kólna þá snýr hann sér ekki svo auð­veld­lega við aftur.“

Sam­kvæmt greiningu WSJ lítur út fyrir að áhættu­taka og spá­kaup­mennska muni halda áfram svo lengi sem hluta­bréf halda áfram að hækka.

En þegar stór hluti hækkana byggir á væntingum frekar en raun­veru­legri af­komu og þegar raf­myntir og tap­rekstur eru orðin uppi­staðan í þeim væntingum er ekki óeðli­legt að greiningaraðilar fari að tala um bólu.

Spurningin er bara hvenær hún springur.