Fjármálamarkaðir vestanhafs hafa verið í miklu skriði á við undanfarna mánuði, en sífellt fleiri greiningaraðilar vara nú við því að hættumerki séu farin að birtast.
Hröð hækkun áhættusamra hlutabréfa, mikill vöxtur rafmynta og aukin áhættutaka meðal fjárfesta minna á fyrri markaðsbólur.
Í umfjöllun The Wall Street Journal eru nefndar fimm lykilvísbendingar sem fjárfestar fylgjast náið með sem gætu gefið til kynna að bólumyndun sé í gangi.
1. Áhættusöm hlutabréf hækka óeðlilega hratt
Hlutfallslega lítil og óhagnaðardrifin fyrirtæki hafa hækkað verulega undanfarið.
Fyrirtæki á borð við Opendoor Technologies, sem sérhæfir sig í fasteignaviðskiptum, hefur hækkað um 377% á einum mánuði, þrátt fyrir að fasteignamarkaður í Bandaríkjunum sé nær kyrrstæður.
Svipaða þróun má sjá í hlutabréfum verslunarkeðjunnar Kohl’s, GoPro og Krispy Kreme.
Flest þessi félög hafa annaðhvort glímt við taprekstur eða verið á undanhaldi í sínum geirum en samt eru þau nú í miklum metum hjá fjárfestum.
Samkvæmt WSJ er hér verið að fjárfesta út frá væntingum um framtíðarvöxt fremur en undirliggjandi rekstrarstöðu.
Samkvæmt greiningarfyrirtækinu Bespoke hafa 33 félög í Russell 3000-vísitölunni þrefaldast í verði frá því í apríl.
Aðeins sex þeirra hafa skilað hagnaði á síðustu 12 mánuðum.
2. Verð á rafmyntum eykst
Bitcoin og Ethereum hafa hækkað töluvert á síðustu vikum, einkum vegna stuðnings Bandaríkjaforseta við rafmyntamarkaðinn og aukins áhuga stærri fagfjárfesta.
Það sem vekur sérstaka athygli nú er að sífellt fleiri skráð félög eru farin að kaupa rafmyntir sem hluta af fjárfestingastefnu sinni
Þar ber helst að nefna MicroStrategy, Riot Platforms og Trump Media & Technology Group, sem nýverið tilkynnti að félagið hefði keypt rafmyntir fyrir 2 milljarða Bandaríkjadala.
Gagnrýnendur vara við að slík stefna geti aukið viðkvæmni á rafmyntamarkaði, þar sem sveiflur í verði geti leitt til keðjuverkandi viðbragða í hlutabréfaverði þessara félaga.
3. Hækkanir á víð og dreif
Hækkanir undanfarna mánuði hafa náð út fyrir stóru tæknifyrirtækin áður fyrr voru megindrifkraftur þess að hlutabréfavísitölur voru á uppleið.
Hækkanirnar á markaði ná nú til allt frá fjármálafyrirtækjum yfir í iðnfyrirtæki.
Til dæmis hefur hlutabréfavísitalan KBW Nasdaq Bank Index hækkað um 7% á einum mánuði, og fyrirtæki eins og GE Vernova og Trade Desk hafa hækkað um yfir 20%.
Þessi breiddaraukning bendir til þess að hækkunin á markaði sé víðtækari og geti þannig virst heilbrigð. En á sama tíma eru verðmatshlutföll komin upp úr öllu valdi.
4. Verðmat hlutabréfa er orðið mjög hátt
Svokallað áhættuálag (e. equity risk premium), sem mælir ávinning af því að fjárfesta í hlutabréfum í stað ríkisskuldabréfa, er nú nánast horfið.
Þetta þýðir að fjárfestar fá í reynd ekki mikla ávöxtun fyrir að taka meiri áhættu. Slíkt ástand er oft túlkað sem vísbending um að markaðurinn sé of hátt verðlagður.
5. Vinnumarkaður sýnir veikleikamerki
Þrátt fyrir að nýlegir tollar hafi vakið áhyggjur af verðbólgu og hægari vexti hefur hagkerfið haldist traust.
Vísitala neysluverðs hefur aðeins hækkað lítillega og landsframleiðsla heldur stöðugri.
Hins vegar er vinnumarkaðurinn vestanhafs byrjaður að kólna. Ráðningar í einkageiranum hafa dregist saman, atvinnusköpun er minni en áður og nýútskrifaðir háskólanemar eiga erfitt með að finna störf. Samkvæmt Callie Cox hjá Ritholtz Wealth Management er þetta alvarlegt merki:
„Þegar vinnumarkaðurinn byrjar að kólna þá snýr hann sér ekki svo auðveldlega við aftur.“
Samkvæmt greiningu WSJ lítur út fyrir að áhættutaka og spákaupmennska muni halda áfram svo lengi sem hlutabréf halda áfram að hækka.
En þegar stór hluti hækkana byggir á væntingum frekar en raunverulegri afkomu og þegar rafmyntir og taprekstur eru orðin uppistaðan í þeim væntingum er ekki óeðlilegt að greiningaraðilar fari að tala um bólu.
Spurningin er bara hvenær hún springur.