Samkeppniseftirlitið (SKE) telur nauðsynlegt að 30 þúsund króna dagsektarheimild Fiskistofu, sem lögð er til í nýframlögðu frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, verði hækkuð.

Í umsögn eftirlitsins um frumvarpið er starf Fiskistofu sagt hafa mikla þýðingu í eftirliti með stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi, og við slíkt eftirlit sé mikilvægt að búa yfir „fullnægjandi úrræðum“.

Í ljósi þess að velta stærstu útgerðarfélaga landsins hafi hlaupið á tugum milljarða í fyrra mælist stofnunin til þess að sektarfjárhæðirnar verði endurskoðaðar og taki tillit til fjárstyrks viðkomandi fyrirtækis.

Óalgengt sé að eftirlitsstofnun hafi til umráða svo lága dagsektarheimild eftir því sem SKE komist næst, heldur virðist algeng hámarksfjárhæð – þar sem kveðið sé á um slíkt yfirhöfuð – vera á bilinu hálf til ein milljón króna, sem dæmi hjá Fjármálaeftirlitinu þar sem hún er í efri mörkum þess bils.