Fiskkaup, sem vinnur, flytur út sjávarafurðir og þjónustar félög í sjávarútvegi, hagnaðist um 488 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við 310 milljónir árið 2023.
Stjórn félagsins lagði til að allt að 250 milljónir króna verði greiddar í arð til hluthafa í ár, að því er segir í ársreikningi félagsins.
Rekstrartekjur námu 5,3 milljörðum króna, samanborið við 4,2 milljarða árið áður. Rekstrarhagnaður (EBIT) jókst úr 575 milljónum í 865 milljónir.
„Rekstur félagsins á árinu 2024 var góður. Velta félagsins hækkaði um 27,6% og framlegð rekstrar var um 21%,“ segir í skýrslu stjórnar.
Fiskkaup, sem á og gerir út tvö skip og vinnslu í Reykjavík, festi kaup á útgerðarfélaginu Aðalbjörgin RE í byrjun árs 2025. Félagið segist ætla að gera Aðalbjörgu RE 5 út í óbreyttri mynd en hún hefur verið gerð út frá Reykjavík til dragnóta- og netaveiða áratugum saman.
Eignir Fiskkaupa voru bókfærðar á 7,6 milljarða króna í árslok 2024, þar af voru fiskiveiðiheimildir upp á tæplega 4,7 milljarða. Eigið fé var rúmur 2,1 milljarður.
Ásbjörn Jónsson er framkvæmdastjóri félagsins en hann er jafnframt stærsti eigandi þess með 28% hlut.