UMI Hotel við Eyjafjallajökul, sem er hluti af Knox hotels hótelkeðjunni, hefur orðið fyrsta hótelið á Íslandi til að innleiða hin DUX rúm frá sænska lúxusframleiðandanum Duxiana í öll herbergi.

Knox segir að með þessari fjárfestingu bætist hótelið í hóp fremstu lúxushótela heims sem bjóði upp á þessa svefnupplifun.

„Svefn er grundvöllur góðrar hótelupplifunar. Við viljum að gestir okkar upplifi hvíld sem er í samhljómi við kyrrðina og náttúruna sem umlykur hótelið. Með DUX rúmunum erum við að færa svefnupplifunina á nýtt stig,“ segir Hrefna Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri KNOX Hotels.

„Með DUX rúmum styrkir hótelið stöðu sína frekar sem lúxus-hótel en frekari endurbætur eru á teikniborðinu sem munu lyfta hótelinu enn hærra upp í gæðum sem í dag eru þó mikil.“

UMI Hotel er staðsett milli fjalls og fjöru undir Eyjafjallajökli. Hótelið hefur frá upphafi lagt áherslu á að sameina hátt þjónustustig og róandi náttúruupplifun.

„Yfir 150 af bestu hótelum heims reiða sig á gæði DUX- rúma og nú hefur UMI Hotel bæst við þann lista, fyrst allra íslenskra hótela. Það er virkilega ánægjulegt. Gestir hótelsins eiga nú kost bestu mögulegu hvíld í einstöku umhverfi,“ segir Haukur Ingi Guðnason, eigandi Verona sem selur Duxiana á Íslandi.