Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bessent, hefur kallað eftir víðtækri rannsókn á Seðlabanka Bandaríkjanna og sakar hann stofnunina um slæma stjórnsýslu og mistök í starfi, samkvæmt Financial Times.
Krafan kemur í kjölfar harðra gagnrýnisradda innan ríkisstjórnar Donalds Trump, sem hefur ítrekað gagnrýnt bankann fyrir að halda vöxtum of háum.
„Það sem við þurfum að gera er að skoða alla starfsemi Seðlabankans og meta hvort hann hafi skilað árangri,“ sagði Bessent í viðtali við CNBC í gærkvöldi.
Ummæli hans eru nýjasta dæmið um spennu milli Trump-stjórnarinnar og Seðlabankans.
Forsetinn hefur margoft gagnrýnt seðlabankastjórann Jay Powell, og í síðustu viku spurði hann hóp repúblikanaþingmanna hvort hann ætti að reka Powell, þó hann bætti við að hann hygðist aðeins gera það ef „brot kæmu upp“.
Ríkisstjórnin hefur einnig gagnrýnt framkvæmdir við höfuðstöðvar bankans í Washington, þar sem viðgerðir á tveimur sögulegum byggingumhafa farið 700 milljónum Bandaríkjadali fram úr áætlun.
Bessent sagði að ef Flugmálastofnun Bandaríkjanna hefði gert jafn mörg mistök og Seðlabankinn „væri þegar búið að rannsaka hvað fór úrskeiðis“.
Seðlabankinn hefur þegar tilkynnt að embætti innri endurskoðanda hans rannsaki framkvæmdina og Powell hefur sent þingmönnum skýringar á hvernig bankinn hyggist draga úr kostnaði.
Á mánudag birti bankinn myndband sem sýnir umfang verksins.
Trump og ráðherrar hans telja að Seðlabankinn hafi viðhaldið of háum vöxtum og skaðað efnahagsbata landsins.
Trump hefur kallað Powell „þrjóskan asna“ og krefst nú vaxtalækkana niður í 1 prósent, þar sem hann segir vaxtastefnu bankans hækka fjármögnunarkostnað ríkisins um hundruð milljarða dollara.
Bessent sagði í samtalinu við CNBC að s-Seðlabanki Bandaríkjanna væri að „dreifa hræðsluáróðri um tolla“ og að Bandaríkin hefðu „séð frábærar verðbólgutölur“.
Neytendaverðsvísitalan í júní sýndi þó 2,7 prósenta árshækkun sem er mesta hækkun frá febrúarmánuði.
Flestir meðlimir peningastefnunefndar Bandaríkjanna vilja halda vöxtum óbreyttum í 4,25–4,5 prósentum, á meðan beðið er eftir að áhrif viðskiptastríðs forsetans á verðbólgu skýrist betur.
Hins vegar telja sumir að vaxandi veikleikar á vinnumarkaði réttlæti væga vaxtalækkun.
Jay Powell hyggst láta af störfum í maí 2026. Á meðal þeirra sem nefndir hafa verið sem mögulegir eftirmenn eru Scott Bessent sjálfur og seðlabankastjórinn Christopher Waller, sem hefur sagt að veikleikar á vinnumarkaði réttlæti 0,25 prósenta lækkun.
Trump hefur þó látið að því liggja að hann vilji halda Bessent áfram í fjármálaráðuneytinu og í staðinn skoði Kevin Hassett, formann þjóðhagráðs forsetans, sem arftaka Powells.