Fjár­málaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bes­sent, hefur kallað eftir víðtækri rannsókn á Seðla­banka Bandaríkjanna og sakar hann stofnunina um slæma stjórnsýslu og mistök í starfi, samkvæmt Financial Times.

Krafan kemur í kjölfar harðra gagn­rýnis­radda innan ríkis­stjórnar Donalds Trump, sem hefur ítrekað gagn­rýnt bankann fyrir að halda vöxtum of háum.

„Það sem við þurfum að gera er að skoða alla starf­semi Seðla­bankans og meta hvort hann hafi skilað árangri,“ sagði Bes­sent í viðtali við CNBC í gærkvöldi.

Um­mæli hans eru nýjasta dæmið um spennu milli Trump-stjórnarinnar og Seðla­bankans.

For­setinn hefur marg­oft gagn­rýnt seðla­banka­stjórann Jay Powell, og í síðustu viku spurði hann hóp repúblikanaþing­manna hvort hann ætti að reka Powell, þó hann bætti við að hann hygðist aðeins gera það ef „brot kæmu upp“.

Ríkis­stjórnin hefur einnig gagn­rýnt fram­kvæmdir við höfuðstöðvar bankans í Was­hington, þar sem við­gerðir á tveimur sögu­legum byggingumhafa farið 700 milljónum Bandaríkjadali fram úr áætlun.

Bes­sent sagði að ef Flug­mála­stofnun Bandaríkjanna hefði gert jafn mörg mistök og Seðla­bankinn „væri þegar búið að rann­saka hvað fór úr­skeiðis“.

Seðla­bankinn hefur þegar til­kynnt að em­bætti innri endur­skoðanda hans rann­saki fram­kvæmdina og Powell hefur sent þing­mönnum skýringar á hvernig bankinn hyggist draga úr kostnaði.

Á mánu­dag birti bankinn mynd­band sem sýnir um­fang verksins.

Trump og ráðherrar hans telja að Seðla­bankinn hafi viðhaldið of háum vöxtum og skaðað efna­hags­bata landsins.

Trump hefur kallað Powell „þrjóskan asna“ og krefst nú vaxtalækkana niður í 1 pró­sent, þar sem hann segir vaxta­stefnu bankans hækka fjár­mögnunar­kostnað ríkisins um hundruð milljarða dollara.

Bes­sent sagði í sam­talinu við CNBC að s-Seðlabanki Bandaríkjanna væri að „dreifa hræðsluáróðri um tolla“ og að Bandaríkin hefðu „séð frábærar verðbólgutölur“.

Neyt­enda­verðsvísi­talan í júní sýndi þó 2,7 pró­senta árs­hækkun sem er mesta hækkun frá febrúarmánuði.

Flestir meðlimir peninga­stefnu­nefndar Bandaríkjanna vilja halda vöxtum óbreyttum í 4,25–4,5 pró­sentum, á meðan beðið er eftir að áhrif við­skipta­stríðs for­setans á verðbólgu skýrist betur.

Hins vegar telja sumir að vaxandi veik­leikar á vinnu­markaði rétt­læti væga vaxtalækkun.

Jay Powell hyggst láta af störfum í maí 2026. Á meðal þeirra sem nefndir hafa verið sem mögu­legir eftir­menn eru Scott Bes­sent sjálfur og seðla­banka­stjórinn Christop­her Waller, sem hefur sagt að veik­leikar á vinnu­markaði rétt­læti 0,25 pró­senta lækkun.

Trump hefur þó látið að því liggja að hann vilji halda Bes­sent áfram í fjár­málaráðu­neytinu og í staðinn skoði Kevin Hassett, for­mann þjóðhag­ráðs for­setans, sem arf­taka Powells.