Flyover Iceland, sem heldur úti sýndarflugi úti á Granda, tapaði 277 milljónum króna eftir skatta í fyrra samanborið við 103 milljóna tap árið áður.
Aukinn taprekstur má að mestu leyti rekja til niðurfærslu skatteignar að fjárhæð 162 milljónir vegna óvissu um nýtingu skattalegs taps í framtíðinni, vegna óvissu um nýtingu skattalegs taps í framtíðinni, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.
FlyOver Iceland sýning hefur verið starfrækt frá því í ágúst 2019. Árlegir gestir hafa verið í kringum 200 þúsund og tók félagið á móti gesti númer milljón á dögunum.
Velta félagsins dróst lítillega saman milli ára og nam 1.071 milljón króna. Rekstrargjöld jukust um 2,7% og námu 1.126 milljónum. Ársverk voru 23 líkt og árið áður.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) fór úr 179 milljónum í 144 milljónir króna milli ára. EBIT-afkoma félagsins var neikvæð um 54 milljónir í fyrra.
Eigið fé neikvætt um 450 milljónir
Eignir Flyover Iceland voru bókfærðar á 820 milljónir króna í árslok 2024, skuldir námu tæplega 1,3 milljörðum króna og eigið fé var neikvætt um 454 milljónir.
Í skýrslu stjórnar segir að taka þurfi til greina við mat á fjárhagsstöðu félagsins að meðal langtímaskulda séu heildarskuldir við tengda aðila sem nema 493 milljónum króna. Þeir aðilar muni halda áfram að styðja við félagið.
„Stjórnin hefur unnið að því að bæta fjárhagsstöðu félagsins og er ársreikningurinn settur fram á grundvelli áframhaldandi rekstrarhæfis. Hins vegar, ef reksturinn þróast ekki í samræmi við spár stjórnenda eða ef hluthafar geta ekki veitt félaginu fjárhagslegan stuðning, þá verður verulegur vafi um áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins.“
Flyover Iceland dótturfélag Esju Attractions ehf. sem er í meirihluta eigu alþjóðlega afþreyingarfyrirtækisins Viad Corp. Esja Attractions hefur afskrifað fjárfestingu sína í Flyover Iceland að fullu.
Viðskiptablaðið greindi frá í mars 2021 þegar Landsréttur dæmdi This is City Attractions B.V., hluthafa Esju, í vil gegn félaginu vegna samnings um uppbyggingar á flugupplifuninni. Esju ber að greiða sem nemur 3,5% af tekjum vegna seldra miða í flugupplifuninni í 15 ár frá opnunardegi, samanber ákvæði í umræddum samningi.