Bæjarráð Akra­ness for­dæmir harð­lega fyrir­huguð áform Evrópu­sam­bandsins um að leggja verndar­tolla á kísiljárn og krefst þess að ríkis­stjórn Ís­lands geri allt sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir að fyrir­hugaðir tollar ESB á kísiljárn verði að veru­leika.

Í til­kynningu frá bæjarráði segir að slíkir tollar gætu haft al­var­leg áhrif á eitt mikilvægasta at­vinnu­fyrir­tæki bæjarfélagsins, Elkem á Grundar­tanga, og jafn­framt sett í upp­nám um­fangs­mikla upp­byggingu og framtíðar­fjár­festingar á iðnaðar­svæðinu.

Þá er ekki ljóst af fréttum hvort hags­munum Norðuráls á Grundar­tanga verði í fram­haldinu ógnað með tollum á ál­fram­leiðslu.

„Verði það niður­staðan blasir við for­dæma­laust áfall fyrir at­vinnulíf á Akra­nesi,“ segir í til­kynningu bæjarráðs.

Bæjarráð vekur sér­staka at­hygli á að Elkem sé ekki ein­angrað fyrir­tæki í rekstri sínum, heldur burðarás í iðnaðar­um­hverfi sem sé nú að taka miklum breytingum.

Á Grundar­tanga standi nú yfir undir­búningur um­fangs­mikilla fjár­festinga í nýjum fram­leiðslu­fyrir­tækjum sem reiða sig á sam­starf við Elkem.

Einnig sé unnið að nýsköpunar­verk­efnum sem miði að bættri nýtingu hráefna og orku í anda hringrásar­hag­kerfisins.

„Tjón á rekstri fyrir­tækja á Grundar­tanga yrði al­var­legt efna­hags­legt áfall og hefði með beinum hætti áhrif á af­komu þjóðar­búsins. Þá er ljóst að at­vinnu og af­komu hundraða ein­stak­linga er ógnað með beinum hætti,“ segir í yfir­lýsingunni.

„Áform ESB eru al­gjör­lega óskiljan­leg og í engu sam­hengi við stefnu sam­bandsins um að gæta að viðkvæmum að­fanga­keðjum fyrir mikilvæg aðföng til iðnaðar­fram­leiðslu. Bæjarráð krefst þess að ríkis­stjórn Ís­lands mót­mæli nú þegar harð­lega slíku broti á EES samningnum. Bæjarráð óskar þegar í stað eftir fundi með for­sætis-, utan­ríkis- og at­vinnumálaráðherrum um þá al­var­legu stöðu sem blasir við á allra næstu dögum,“ segir þar enn fremur.