Forstjórar stærstu fyrirtækja Frakklands vara við að pólitísk óvissa og stjórnarkreppa í landinu geti leitt til alvarlegrar efnahagslægðar, samkvæmt Financial Times.
Með vaxandi hallarekstri ríkisins, hækkandi fjármagnskostnaði og minnkandi efnahagsvexti segja atvinnurekendur að brýnt sé að koma á pólitískri samstöðu um fjármálastefnuna áður en staðan versnar enn frekar.
Forsætisráðherrann François Bayrou mun leggja fram vantrauststillögu 8. september í von um að styrkja umboð sitt til að koma í gegn 44 milljarða evra pakka skattahækkana og útgjaldalækkana.
Stjórnarandstaðan hefur þegar lýst yfir vilja til að fella ríkisstjórnina en þetta yrði þá í þriðja sinn á rúmu ári sem frönsk ríkisstjórn fellur.
Leiðtogi jafnaðarmanna, Olivier Faure, sagði að flokkur hans væri tilbúinn að taka við stjórn landsins og að „Frakkland gæti ekki lengur lifað í viðvarandi óvissu“.
Patrick Martin, formaður atvinnulífssamtakanna Medef, sagði á viðskiptaráðstefnu að „pöntunarbækur væru að tæmast“ og að líkur væru á að gjaldaþrotum fari fjölgandi og hagvöxtur dragist saman.
„Við erum þegar í mjög viðkvæmri stöðu. Nú erum við að bæta pólitískri áhættu við sem er bein ógn við hagvöxt,“ sagði Martin.
Alexandre Bompard, forstjóri Carrefour, tók í sama streng:
„Einkaneysla er það eina sem heldur hagvexti gangandi um þessar mundir.
Óvissa er það versta fyrir neytendur – því meiri óvissa, því meiri hætta á að neyslan dragist saman.“
Óstöðugleikinn skekur fjármálamarkaði
Ávöxtunarkrafa á 10 ára ríkisskuldabréf Frakklands fór í síðustu viku yfir 3,5% – nær hæsta stigi frá skuldakreppu evrusvæðisins.
Á sama tíma hefur skuldaálag Frakklands gagnvart Þýskalandi rokið upp og nálgast nú met frá árinu 2012.
Bruno Cavalier, aðalhagfræðingur ODDO BHF, sagði að Frakkland stæði frammi fyrir „lægri hagvexti og stærri fjárlagahalla“ á næsta ári og að hættan væri sú að Emmanuel Macron forseti yrði neyddur til að boða enn eitt þingkosningarnar ef ríkisstjórnin fellur.
Leiðtogar stærstu fyrirtækja Frakklands segja stöðugleika forsendu fjárfestinga og atvinnusköpunar.
Catherine MacGregor, forstjóri orkufyrirtækisins Engie, sagði að hún væri „stundum hissa á því hve lítið stjórnmálamenn geri sér grein fyrir hve mikið samkeppnisforskot stöðugleiki getur verið“.
Guillaume Borie, forstjóri AXA France, sagði að fyrirtækið hefði haldið aftur af fjárfestingum í 18 mánuði vegna pólitísks óöryggis. „Við þurfum pólitískan skýrleika til að geta tekið ákvarðanir um fjárfestingar,“ sagði hann.
Með óvissu um stjórnarmyndun og fjárlög óttast atvinnulífið að þingið leiti í frekari skattahækkanir til að brúa hallann – sem að þeirra mati gæti kæft hagvöxt alveg.
„Leyfið okkur að vaxa, fjárfesta, nýskapa, ráða og flytja út. Þetta er leiðin til efnahagsbata,“ sagði Patrick Martin hjá Medef.
Amir Reza-Tofighi, formaður samtaka smáfyrirtækja, bætti við:
„Óvissa í stjórnmálum hylur forstjóra í þoku – hvernig eiga þeir að fjárfesta eða ráða í störf þegar þeir vita ekki hvernig morgundagurinn lítur út?“