Konur hafa lengi verið í miklum minnihluta meðal forstjóra á Íslandi, þrátt fyrir mikla menntun, starfsreynslu og jafnréttislöggjöf.

Ný rannsókn eftir Hrefnu Guðmundsdóttur, Þóru Christiansen og Ástu Dís Óladóttur bendir til þess að vandinn liggi oft í ráðningarferlinu sjálfu. Rannsóknin byggir á viðtölum við reynda ráðgjafa frá helstu ráðningarskrifstofum landsins sem hafa haft milligöngu um ráðningu fjölmargra forstjóra á Íslandi.

Ásta Dís Óladóttir, prófessor og stofnandi Rannsóknaseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi við Háskóla Íslands, segir helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að stjórnendaleitarráðgjafar gegna lykilhlutverki í ráðningarferli forstjóra og hafa veruleg áhrif á það hverjir komast að í ferlinu og hverjir ekki. Það spili m.a. stórt hlutverk að forstjórastöður séu ekki auglýstar opinberlega.

„Leitaraðferðir byggjast oft á óformlegum tengslanetum og hefðbundnum viðmiðum sem viðhalda ríkjandi mynstri, þar sem karlar eru líklegri til að hljóta forstjórastöður og kynjajafnvægi er sjaldnast sett í forgang,“ segir Ásta Dís.

„Þó komu fram dæmi um ráðgjafa sem eru að reyna að breyta þessu mynstri og leggja áherslu á fjölbreytileika í framboði, en þeim mætir oft tregða frá stjórnum sem óska eftir „þekktum nöfnum“. Eins og einn viðmælandi orðaði það: sömu karlarnir snúast í hringekju milli stóla,“ segir hún enn fremur.

Fram kemur í rannsókninni að sumir ráðgjafar hafi meðvitað sett konur á lista yfir mögulega umsækjendur en stundum væri það gert til þess að geta tikkað í ákveðið box. Þá skipti máli hvernig listarnir séu kynntir, þar sem minnstu atriði geta minnkað líkurnar á ráðningu.

Ásta Dís bendir á að það endurspegli áhættuótta í ferlinu, þar sem stjórnir og ráðgjafar veigra sér við því að ráða einhvern sem ekki „hefur prófað þetta áður“.

„Þar með verður hæfni og metnaður kvenna metinn sem áhætta en ekki tækifæri. Slíkar aðstæður geta leitt til þess að jafn hæfar konur fái ekki raunhæft tækifæri í lokaúrtaki,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.