Hóteleigandinn og milljarðamæringurinn Ong Beng Seng frá Singapúr hefur verið sektaður um 23.400 dali, eða um 2,8 milljónir króna, eftir að hafa játað sig sekan í tengslum við ársgamalt gjafahneykslismál.

Á vef BBC segir að Ong hafi játað sig sekan um að hafa aðstoðað fyrrverandi samgönguráðherra Singapúr, Subramaniam Iswaran, við að hylma yfir sönnunargögn á meðan verið var að rannsaka Iswaran fyrir spillingu.

Ong mun hafa gefið Iswaran dýrar gjafir, þar á meðal ferðalög með einkaþotu, á meðan hann gegndi opinberum erindum.

Í desember 2022 bauð Ong Iswaran í ferð til Katar og sagðist ætla að sjá um öll útgjöld hans, þar á meðal hótelgistingu og flug til Doha með einkaþotu Ongs. Iswaran þáði það boð og sá svo Ong um að ráðherrann myndi ferðast frá Doha til Singapúr með ferðaflugi.

Þingmenn í Singapúr eru meðal þeirra hæst launuðu í heiminum en leiðtogar þjóðarinnar réttlæta þessi háu laun með því að segja að þau komi í veg fyrir spillingu.

Hinn 79 ára gamli auðjöfur átti yfir höfði sér sjö ára fangelsisdóm en dómari málsins ákvað að veita miskunn vegna slæmrar heilsu hans. Ong þjáist af mergæxli, sjaldgæfu krabbameini í beinmerg.