Bandaríska tæknifyrirtækið Marathon Fusion, sem vinnur að þróun kjarnasamruna til orkuframleiðslu, heldur því fram að það hafi fundið vísindalega grundvallarforsendu fyrir framleiðslu á gulli úr kvikasilfri, samkvæmt Financial Times.
Fyrirtækið segir að með því að nýta nifteindir úr samrunaferli megi umbreyta kvikasilfursísótópum í hreint gull.
Uppgötvunin er kynnt í nýbirtri vísindagrein sem hefur ekki hlotið ritrýni en hefur vakið mikla athygli meðal vísindamanna.
Samkvæmt FT segja fjölmargir sérfræðingar og vísindamenn aðferðina trúverðuga, þó að enn sé langt í að aðferðin verði nýtt til að framleiða mikið magn af gulli.
Samkvæmt greiningu Marathon felst aðferðin í því að kvikasilfur-198, sem bætt er í svokallaðan „breiðsluvegg“ (e. breeding blanket) samrunaofns, taki við nifteindum sem myndast við samruna vetnisísótópanna deuteríum og tríteríum.
Kvikasilfur-198 breytist þá í kvikasilfur-197, sem er óstöðugt og hrynur á 64 klukkustundum, í gull-197, eina stöðuga ísótóp gulls.
„Lykilhugsunin er að nýta nifteindaflæði sem þegar er til staðar í ofninum til að framleiða mikið magn af gulli, án þess að skerða orkuvinnslu eða eldsneytisnýtingu,“ segir Adam Rutkowski, tæknistjóri og meðstofnandi Marathon.
Orkuver gæti framleitt 5 tonn árlega
Marathon heldur því fram að með þessari aðferð geti 1 GW samrunaorkuver framleitt allt að 5.000 kg af gulli árlega, án þess að draga úr eldsneytisframleiðslu (tríteríum) né orkuvinnslu.
Miðað við núverandi gullverð mundi virði gullsins vera sambærilegt við virði raforkunnar, og gæti þar með tvöfaldað rekstrartekjur orkuversins.
Þetta væri þá ekki einungis möguleg bylting í efnagerð heldur hagræn grundvallarbreyting í viðskiptagrundvelli samrunaorku, sem hingað til hefur glímt við langvarandi fjármögnunarvanda vegna tæknilegra áskorana og tímafrekra þróunarlína.
Dr. Ahmed Diallo, eðlisfræðingur við Princeton-rannsóknarstofnun bandaríska orkumálaráðuneytisins, sagði við Financial Times að hugmyndin væri „spennandi og vel útfærð á pappír“ og að margir í greininni væru spenntir fyrir framhaldinu.
Gæti orðið geislavirkt
En málið er þó ekki alveg svo einfalt samkvæmt FT. Ef aðrir kvikasilfursísótópar eru til staðar í kerfinu geta þeir umbreyst í óstöðuga gullísótópa, sem hafa geislavirkni.
Rutkowski segir að slíkt gull þurfi að geyma í 14 til 18 ár áður en það teljist alveg öruggt og hæft til almennrar notkunar.
Marathon Fusion var stofnað árið 2023 af Rutkowski og Kyle Schiller, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.
Fyrirtækið hefur safnað samtals 5,9 milljónum dala í fjárfestingu og fengið um 4 milljónir dala í styrki frá bandarískum stjórnvöldum. Upphaflega snerist starfsemin um verkfræðileg úrræði fyrir samrunaofna en í byrjun árs 2025 hóf teymið rannsóknir á kjarnahvörfun til að búa til verðmæt efni.
„Gullmarkaðurinn er nægilega stór til að taka við þessu magni án þess að valda verðfalli,“ sagði Dan Brunner, vísindaráðgjafi fyrirtækisins og fyrrverandi tæknistjóri Commonwealth Fusion Systems.
Marathon telur að sambærileg umbreyting sé möguleg fyrir fleiri eðalmálma en gull sé sérlega áhugavert, ekki aðeins vegna verðmætis heldur einnig vegna stöðugrar eðlisfræði gull-197, sem gerir það að eftirsóttum lokaeiginleika í umbreytingunni.
Þróun samrunaorku hefur verið sein og kostnaðarsöm. Engin tilraun hefur enn skilað jákvæðum orkuskiptum (meiri orku út en inn), en vonir standa til að það breytist á komandi árum.
Fyrirtækið Commonwealth Fusion Systems hefur lýst yfir áformum um að gangsetja sýningarorkuver árið 2027 og framleiða rafmagn fyrir Google á næsta áratug.
Samkvæmt Fusion Industry Association söfnuðu samrunaorkufyrirtæki 2,6 milljörðum dala á síðustu 12 mánuðum og nemur heildarfjárfesting í greininni nú 9,8 milljörðum dala.
„Fjármögnunin sem slík gullframleiðsla gæti opnað fyrir myndi leysa mörg hinna tæknilegu vandamála,“ sagði fjárfestirinn Malcolm Handley hjá Strong Atomics, fyrsta sjóðnum sem lagði fé í Maraþon.
Þó að tilraunin standist eðlisfræðileg rök og veki áhuga er langt í að aðferðin nýtist á hagkvæman hátt í iðnvæddum samrunaorkuverum.
Verkfræðilegar áskoranir – og regluumhverfið í kringum vinnslu á mögulega geislavirku gulli, þarf að leysa áður en til raunverulegrar gullframleiðslu kemur.
En ef Marathon Fusion tekst ætlunarverk sitt gæti samrunaorka ekki aðeins boðið upp á endalausa orku heldur líka framleiðslu verðmætra hrávara á borð við gull, með áhrifum sem gætu breytt alþjóðlegum markaði fyrir eðalmálma til frambúðar.