Bandaríska tækni­fyrir­tækið Mar­at­hon Fusion, sem vinnur að þróun kjarna­sam­runa til orku­fram­leiðslu, heldur því fram að það hafi fundið vísinda­lega grund­vallar­for­sendu fyrir fram­leiðslu á gulli úr kvika­silfri, sam­kvæmt Financial Times.

Fyrir­tækið segir að með því að nýta nift­eindir úr sam­runa­ferli megi um­breyta kvika­silfursísótópum í hreint gull.

Upp­götvunin er kynnt í ný­birtri vísinda­grein sem hefur ekki hlotið rit­rýni en hefur vakið mikla at­hygli meðal vísinda­manna.

Sam­kvæmt FT segja fjölmargir sér­fræðingar og vísinda­menn að­ferðina trúverðuga, þó að enn sé langt í að að­ferðin verði nýtt til að fram­leiða mikið magn af gulli.

Sam­kvæmt greiningu Mar­at­hon felst að­ferðin í því að kvika­silfur-198, sem bætt er í svo­kallaðan „breiðslu­vegg“ (e. breeding blan­ket) sam­runa­ofns, taki við nift­eindum sem myndast við sam­runa vetnisísótópanna deu­teríum og tríteríum.

Kvika­silfur-198 breytist þá í kvika­silfur-197, sem er óstöðugt og hrynur á 64 klukku­stundum, í gull-197, eina stöðuga ísótóp gulls.

„Lykil­hugsunin er að nýta nift­einda­flæði sem þegar er til staðar í ofninum til að fram­leiða mikið magn af gulli, án þess að skerða orku­vinnslu eða elds­neytisnýtingu,“ segir Adam Rutkowski, tækni­stjóri og með­stofnandi Mar­at­hon.

Orkuver gæti framleitt 5 tonn árlega

Mar­at­hon heldur því fram að með þessari að­ferð geti 1 GW sam­runa­orku­ver fram­leitt allt að 5.000 kg af gulli ár­lega, án þess að draga úr elds­neytis­fram­leiðslu (tríteríum) né orku­vinnslu.

Miðað við núverandi gull­verð mundi virði gullsins vera sam­bæri­legt við virði raf­orkunnar, og gæti þar með tvöfaldað rekstrar­tekjur orku­versins.

Þetta væri þá ekki einungis mögu­leg bylting í efna­gerð heldur hag­ræn grund­vallar­breyting í við­skipta­grund­velli sam­runa­orku, sem hingað til hefur glímt við lang­varandi fjár­mögnunar­vanda vegna tækni­legra áskorana og tíma­frekra þróunar­lína.

Dr. Ah­med Diallo, eðlis­fræðingur við Princet­on-rannsóknar­stofnun bandaríska orkumálaráðu­neytisins, sagði við Financial Times að hug­myndin væri „spennandi og vel út­færð á pappír“ og að margir í greininni væru spenntir fyrir fram­haldinu.

Gæti orðið geislavirkt

En málið er þó ekki alveg svo einfalt samkvæmt FT. Ef aðrir kvika­silfursísótópar eru til staðar í kerfinu geta þeir um­breyst í óstöðuga gullísótópa, sem hafa geisla­virkni.

Rutkowski segir að slíkt gull þurfi að geyma í 14 til 18 ár áður en það teljist alveg öruggt og hæft til al­mennrar notkunar.

Mar­at­hon Fusion var stofnað árið 2023 af Rutkowski og Kyle Schiller, fram­kvæmda­stjóra fyrir­tækisins.

Fyrir­tækið hefur safnað sam­tals 5,9 milljónum dala í fjár­festingu og fengið um 4 milljónir dala í styrki frá bandarískum stjórn­völdum. Upp­haf­lega snerist starf­semin um verk­fræði­leg úrræði fyrir sam­runa­ofna en í byrjun árs 2025 hóf teymið rannsóknir á kjarna­hvörfun til að búa til verðmæt efni.

„Gull­markaðurinn er nægi­lega stór til að taka við þessu magni án þess að valda verð­falli,“ sagði Dan Brunn­er, vísindaráðgjafi fyrir­tækisins og fyrr­verandi tækni­stjóri Commonwealth Fusion Sy­stems.

Mar­at­hon telur að sam­bæri­leg um­breyting sé mögu­leg fyrir fleiri eðal­málma en gull sé sér­lega áhuga­vert, ekki aðeins vegna verðmætis heldur einnig vegna stöðugrar eðlis­fræði gull-197, sem gerir það að eftir­sóttum loka­eigin­leika í um­breytingunni.

Þróun sam­runa­orku hefur verið sein og kostnaðarsöm. Engin til­raun hefur enn skilað jákvæðum orku­skiptum (meiri orku út en inn), en vonir standa til að það breytist á komandi árum.

Fyrir­tækið Commonwealth Fusion Sy­stems hefur lýst yfir áformum um að gang­setja sýningar­orku­ver árið 2027 og fram­leiða raf­magn fyrir Goog­le á næsta ára­tug.

Sam­kvæmt Fusion Indus­try Association söfnuðu sam­runa­orku­fyrir­tæki 2,6 milljörðum dala á síðustu 12 mánuðum og nemur heildar­fjár­festing í greininni nú 9,8 milljörðum dala.

„Fjár­mögnunin sem slík gull­fram­leiðsla gæti opnað fyrir myndi leysa mörg hinna tækni­legu vanda­mála,“ sagði fjár­festirinn Malcolm Handl­ey hjá Strong At­omics, fyrsta sjóðnum sem lagði fé í Maraþon.

Þó að til­raunin standist eðlis­fræði­leg rök og veki áhuga er langt í að að­ferðin nýtist á hag­kvæman hátt í iðn­væddum sam­runa­orku­verum.

Verk­fræði­legar áskoranir – og reglu­um­hverfið í kringum vinnslu á mögu­lega geisla­virku gulli, þarf að leysa áður en til raun­veru­legrar gull­fram­leiðslu kemur.

En ef Mar­at­hon Fusion tekst ætlunar­verk sitt gæti sam­runa­orka ekki aðeins boðið upp á enda­lausa orku heldur líka fram­leiðslu verðmætra hrávara á borð við gull, með áhrifum sem gætu breytt alþjóð­legum markaði fyrir eðal­málma til fram­búðar.