Fylgifiskar, sérverslun með sjávarfang, eru byrjaðir að flytja inn heimaræktað hunang frá Alfreð Gíslasyni, handboltaþjálfara og fyrrum landsliðsmanni Íslands í handbolta.

„Það verður nóg af hunangi til um jólin,“ segir Guðbjörg Glóð Logadóttir, forstjóri Fylgifiska. Hún segir hunangið væntanlegt í búðarhillur Fylgifiska í næstu viku. „Alfreð átti frumkvæðið að sölu hunangsins í verslun okkar,“ en hunanginu lýsir hún sem lífrænt ræktuðu eðalhunangi.

Alfreð var gestur hlaðvarpsins „The Snorri Björns Podcast Show“ nú í vikunni þar sem hann minntist á býflugnaræktunina. Alfreð kom einnig inn á umfangsmikla ræktun sína á ávaxtatrjám en Alfreð ræktar um 170 ávaxtatré og rósategundir í garðinum sínum í Þýskalandi.

Guðbjörg segir að Alfreð sé að þróa vöru úr ávöxtunum og verður varan, líkt og hunangið, fáanleg í verslun Fylgifiska í náinni framtíð.