Fyrirtækjum í Bandaríkjunum er farið að þykja heimavinna ekki sniðug að því er Wall Street Journal greinir frá . Heimavinnan hefur orðið til þess að verkefni taki lengri tíma, samvinna sé erfiðari og erfitt sé að þjálfa nýja starfskrafta.

Fyrir um fjórum mánuðum síðan virtist það svo að heimavinnan hjá hinum ýmsum fyrirtækjum gengi vel. Framkvæmdastjórar urðu agndofa yfir því hversu vel gekk jafnvel þótt starfsmenn sinntu líka börnum sínum meðan þeir unnu heima. Twitter og Facebook sögðust ætla að bjóða starfmönnum sínum upp á að vinna heiman frá sér til lengri tíma litið.

Nú aftur á móti eru ýmsir brestir farnir að koma fram sem sýni fram á það að heimavinna sé ekki endilega fýsileg. Dæmi um þessa bresti er að verkefni taki lengri tíma, erfitt sé að ráða nýja starfsmenn og ungir starfsmenn þjálfist ekki jafnvel eins og þeir myndu annars gera á hefðbundnum skrifstofum.

„Framkvæmdastjórar eru farnir að líta svo á að heimavinna sé einfaldlega ekki sjálfbær," segir Laszlo Bock, mannauðsstjóri sprotafyrirtækisins Humu og fyrrum mannauðsstjóri Google. „Heimavinnan er einfaldlega ekki jafn skilvirk eins og hún var í upphafi faraldursins."