Fyrrverandi viðskiptaráðherra Danmerkur, Henrik Sass Larsen, hefur verið dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir vörslu á kynferðislegu efni tengdu börnum.
Dómur féll í Kaupmannahafnarrétti í dag þar sem einróma kviðdómur taldi sannað að Sass Larsen hefði haft yfir meira en 6.200 ljósmyndir og 2.200 myndskeið af slíku efni, en Børsen greinir frá.
Hélt því fram að rannsókn væri ástæðan
Sass Larsen hélt því fram fyrir dómi að hann hefði einungis skoðað efnið sem hluta af eigin rannsókn.
Hann kvaðst hafa fengið tölvupóst árið 2018 með hlekk á myndband sem sýndi kynferðislegt ofbeldi gegn barni sem hann taldi vera sjálfan sig.
Í kjölfarið hafi hann fengið annan hlekk með öðru myndbandi og ákvað þá að safna efni til að reyna að komast að því hverjir gerendurnir væru.
Myndefnið væri ekki lengur til, sagði hann, en tilgangurinn hefði eingöngu verið að afhjúpa árásarmennina.
Auk vörslu myndefnis var Sass Larsen ákærður fyrir að hafa átt barnadúkku í kynferðislegum tilgangi, en hann var sýknaður af þeim ákærulið.
Sass Larsen var ráðherra viðskipta og vaxtar frá 2013 til 2015 og síðar formaður þingflokks Jafnaðarmanna á árunum 2015 til 2019.