Rafbílaframleiðandinn Tesla afhenti í dag fyrstu bílana sem framleiddir voru í nýrri 5 milljarða evra, eða um 715 milljarða króna, risaverksmiðju fyrirtækisins í Grünheide í Þýskalandi. Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, og Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, voru viðstaddir viðburðinn.

Áætlað er að framleiddir verða um 500 þúsund bílar í verksmiðjunni árlega við full afköst. JPMorgan spáir því að Grunheide verksmiðjan muni framleiða 54 þúsund bíla í ár, 280 þúsund á næsta ári og muni ná 500 þúsund bílum árið 2025. Til samanburðar seldi Volkswagen 450 þúsund rafbíla um allan heim á öllu síðasta ári.

Þá mun verksmiðjan einnig framleiða 50 gígavattstundir af raforku, meira en nokkur önnur verksmiðja í Þýskalandi samkvæmt Reuters . Tesla segir að um 3.500 starfsmenn hafi verið ráðnir til að starfa í verksmiðjunni en áætlað er að fjöldinn fari upp í 12 þúsund manns.

Musk hafði vonast til þess að afhenda fyrsta bílinn úr verksmiðjunni átta mánuðum fyrr. Framkvæmdir töfðust þar sem þýskir dómstólar skipuðu fyrir um tímabundna stöðvun árið 2020 vegna umhverfissjónarmiða. Tesla fékk grænt ljós að hefja framleiðslu þann 4. mars síðastliðinn, svo sem lengi sem fyrirtækið uppfyllti skilyrði um vatnsnotkun og loftmengun.

Tafirnar gerðu það að verkum að Tesla þurfti að afgreiða pantanir í Evrópu frá verksmiðjunni félagsins í Shanghai. Sú tilfærsla hafði í för með sér tilheyrandi kostnaðarauka.

„Framleiðsla innan álfunnar leiðir af sér gríðarmikinn mun á skilvirkni fjármagns (e. capital efficiency),“ tísti Musk.