Hægri­flokkurinn Ref­orm UK ætlar að gera róttækar breytingar á fjár­festingum opin­berra líf­eyris­sjóða í Bret­landi.

Flokkurinn segir að lé­leg stjórnun og of hár kostnaður hjá líf­eyris­sjóði starfs­manna sveitarfélaganna kosti breska skatt­greiðendur allt að 10 milljarða punda á ári í glataðar tekjur og óþarfa gjöld.

Á blaða­manna­fundi í dag sakaði vara­for­maður flokksins, Richard Tice, stjórn­endur sjóðanna um „van­hæfni í besta falli, grófa van­rækslu í versta falli“ en Bloomberg greinir frá.

Hann sagði að líf­eyris­sjóðirnir væru að greiða of háar þóknanir til fjár­festinga­stjóra sem skiluðu ávöxtun undir væntingum og þegar halli væri á rekstri féllu byrðarnar á skatt­greiðendur.

„Við sjáum menningu þar sem ráðgjafar og lög­fræðingar græða á meðan líf­eyris­sjóðirnir fá of lítið fyrir peningana,“ sagði Tice og krafðist stærðar­hag­kvæmni og betri árangurs.

Ref­orm UK, sem hefur unnið sér inn vaxandi fylgi í skoðanakönnunum og náði fjölda sveitar­stjórnarsæta í vor, hyggst þrýsta á að „van­hæfir fjár­festinga­stjórar“ verði látnir fara og að fjár­fest sé minna í dýrum, óskráðum eignum.

Flokkurinn vill í staðinn beina sjóðunum að ein­faldri fjár­festinga­stefnu sem byggir meira á alþjóð­legum hluta­bréfum og vísitölu­sjóðum og minna af fjár­festingum tengdum kol­efnis­hlut­leysi.

Tice sagði að með lægri gjöldum gætu sveitarfélög annaðhvort lækkað útsvarið eða aukið fram­lög til félagsþjónustu.

Hann full­yrti að líf­eyris­sjóðirnir gætu þénað 9–11 milljarða punda meira á ári ef þeir fjár­festu með lægri kostnaði í 75% alþjóð­legum hluta­bréfum og 25% skulda­bréfum.

„Virku fjár­festinga­stjórarnir sigra aldrei meðal­tal vísitölu­sjóða. Líf­eyris­sjóðir eru langtíma­verk­efni og hluta­bréf hafa alltaf skilað mestum arði,“ sagði Tice.

Lo­cal Govern­ment Pension Scheme er stærsta líf­eyris­kerfi Bret­lands með um 7 milljónir sjóðs­félaga og 400 milljarða punda í eignum, sem er spáð að muni vaxa í 1.000 milljarða punda fyrir 2040.

Í dag er eignum þess skipt í 86 sjóði og um helmingur eigna er nú þegar fjár­festur í hluta­bréfum.