Árshlutareikningur Garðabæjar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2025 sýnir að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta sveitarfélagsins var jákvæð um 287 milljónir króna. Heildartekjur bæjarins á fyrri hluta ársins námu 16,2 milljörðum króna en á móti stóðu rekstrargjöld að fjárhæð 13,9 milljarðar króna.
Afkoma fyrir fjármagnsliði og afskriftir var jákvæð um tæpa 2,4 milljarða króna og veltufé frá rekstri nam 1,4 milljörðum króna sem styrkir lausafjárstöðu bæjarins og gerir honum kleift að fjármagna hluta af framkvæmdum án þess að auka skuldsetningu verulega.
Stærsti tekjuliður bæjarsjóðs voru útsvar og fasteignaskattar sem námu 11,6 milljörðum króna.
Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga voru 1,6 milljarðar króna og aðrar tekjur, þar á meðal af sölu byggingarréttar, námu 2,5 milljörðum króna. Á útgjaldahliðinni voru laun og launatengd gjöld 7,1 milljarður króna og annar rekstrarkostnaður 6,7 milljarðar króna.
Þegar litið er til einstakra málaflokka má sjá að fræðslu- og uppeldismál eru stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins með 8,6 milljarða króna á fyrri hluta ársins.
Félagsþjónusta er næststærsti málaflokkurinn með 2,3 milljarða króna og íþrótta- og æskulýðsmál koma þar á eftir með 1,9 milljarða króna.
Efnahagsreikningur sýnir að eigið fé Garðabæjar í lok júní nam 29 milljörðum króna sem jafngildir 43 prósenta eiginfjárhlutfalli.
Skammtímaskuldir hafa lækkað verulega frá fyrra ári og langtímalántökur voru hóflegar þrátt fyrir áframhaldandi fjárfestingar í innviðum sem námu 2,2 milljörðum króna á fyrri hluta ársins.
Almar Guðmundsson bæjarstjóri sagði við framlagningu uppgjörsins að niðurstöðurnar væru í samræmi við fjárhagsáætlanir bæjarins og að traust fjárhagsstaða væri lykillinn að því að sveitarfélagið gæti haldið áfram að veita góða þjónustu og staðið undir vaxandi þörfum íbúa til framtíðar.
„Rekstur bæjarins er í jafnvægi og í samræmi við áætlanir. Grunnreksturinn eflist enn og sjóðstreymi styrkist. Enn og aftur minnum við á að traust fjárhagsstaða er undirstaða þess að Garðabær sé vel undir það búinn að mæta þörfum nýrra og núverandi íbúa. Við erum ánægð með og finnum fyrir því að fólk vill flytja í Garðabæ. Umgjörð fjármála sveitarfélagsins sýnir líka að bæjarfélagið er vel í stakk búið til að tryggja áfram öfluga þjónustu við íbúa Garðabæjar.“