Árs­hluta­reikningur Garða­bæjar fyrir tíma­bilið 1. janúar til 30. júní 2025 sýnir að rekstrarniður­staða A- og B-hluta sveitarfélagsins var jákvæð um 287 milljónir króna. Heildar­tekjur bæjarins á fyrri hluta ársins námu 16,2 milljörðum króna en á móti stóðu rekstrar­gjöld að fjár­hæð 13,9 milljarðar króna.

Af­koma fyrir fjár­magns­liði og af­skriftir var jákvæð um tæpa 2,4 milljarða króna og veltu­fé frá rekstri nam 1,4 milljörðum króna sem styrkir lausa­fjár­stöðu bæjarins og gerir honum kleift að fjár­magna hluta af fram­kvæmdum án þess að auka skuld­setningu veru­lega.

Stærsti tekjuliður bæjar­sjóðs voru útsvar og fast­eigna­skattar sem námu 11,6 milljörðum króna.

Fram­lög úr Jöfnunar­sjóði sveitarfélaga voru 1,6 milljarðar króna og aðrar tekjur, þar á meðal af sölu byggingarréttar, námu 2,5 milljörðum króna. Á út­gjalda­hliðinni voru laun og launa­tengd gjöld 7,1 milljarður króna og annar rekstrar­kostnaður 6,7 milljarðar króna.

Þegar litið er til ein­stakra mála­flokka má sjá að fræðslu- og upp­eldis­mál eru stærsti út­gjaldaliður sveitarfélagsins með 8,6 milljarða króna á fyrri hluta ársins.

Félagsþjónusta er næst­stærsti mála­flokkurinn með 2,3 milljarða króna og íþrótta- og æskulýðsmál koma þar á eftir með 1,9 milljarða króna.

Efna­hags­reikningur sýnir að eigið fé Garða­bæjar í lok júní nam 29 milljörðum króna sem jafn­gildir 43 pró­senta eigin­fjár­hlut­falli.

Skammtíma­skuldir hafa lækkað veru­lega frá fyrra ári og langtímalántökur voru hóf­legar þrátt fyrir áfram­haldandi fjár­festingar í inn­viðum sem námu 2,2 milljörðum króna á fyrri hluta ársins.

Almar Guð­munds­son bæjar­stjóri sagði við fram­lagningu upp­gjörsins að niður­stöðurnar væru í samræmi við fjár­hagsáætlanir bæjarins og að traust fjár­hags­staða væri lykillinn að því að sveitarfélagið gæti haldið áfram að veita góða þjónustu og staðið undir vaxandi þörfum íbúa til framtíðar.


„Rekstur bæjarins er í jafn­vægi og í samræmi við áætlanir. Grunn­reksturinn eflist enn og sjóð­streymi styrkist. Enn og aftur minnum við á að traust fjár­hags­staða er undir­staða þess að Garða­bær sé vel undir það búinn að mæta þörfum nýrra og núverandi íbúa. Við erum ánægð með og finnum fyrir því að fólk vill flytja í Garða­bæ. Um­gjörð fjár­mála sveitarfélagsins sýnir líka að bæjarfélagið er vel í stakk búið til að tryggja áfram öfluga þjónustu við íbúa Garða­bæjar.“