Hlutabréf bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing hafa fallið um 5% í viðskiptum fyrir opnun bandaríska markaðarins eftir að farþegaflugvél China Eastern Airlines með 132 einstaklingum um borð hrapaði í fjallshlíð í Guangxi héraðinu í suðurhluta Kína í morgun. Þá hafa hlutabréf kínverska flugfélagsins, sem skráð eru í Bandaríkjunum, fallið um meira en 9% fyrir opnun markaða.

Flugvélin var sex ára gömul Boeing 737-800 þota. Þær taka að hámarki 189 farþega og notast við CFM-56 hreyfla sem eru framleiddir af General Electric og franska fyrirtækinu Safran SA, samkvæmt Reuters .

Ekkert er vitað um afdrif farþega og áhafnar eða hvað olli slysinu að svo stöddu, samkvæmt BBC . Björgunarlið hefur ekki séð nein merki um lífsmark á slysstað.

Boeing 737-800 þoturnar eru forverar 737 MAX vélanna sem voru kyrrsettar frá mars 2019 til nóvember 2020 vegna tveggja banvænna flugslysa á fimm mánaða tímabili í morgun. Boeing bíður þessa dagana eftir leyfi fyrir 737 MAX flugvélarnar frá kínverskum flugmálayfirvöldum.