Eftir töluverða gengislækkun í júlímánuði fór hlutabréfaverð Icelandair aftur upp á við í viðskiptum dagsins.
Gengi Icelandair hækkaði um rúm 2% og var dagslokagengið 1,06 krónur á hlut. þ
Gengi flugfélagsins stóð í 1,28 krónum á hlut um miðjan mánuð áður en félagið birti árshlutauppgjör fyrir annan ársfjórðung. Fjárfestar tóku ekki vel í uppgjörið og hefur gengið verið á stöðugri niðurleið síðan þá.
Gengi Icelandair hefur nú hækkað tvo viðskiptadaga í röð en slíkt hefur ekki gerst frá því að félagið birti uppgjör um miðjan mánuð.
Hlutabréfaverð Icelandair hefur lækkað um tæp 28% á árinu en hækkað um 22% síðastliðið ár.
Gengi fasteignafélagsins Heima hækkaði einnig í viðskiptum dagsins. Dagslokagengið var 38,4 krónur á hlut eftir tæplega 1,6% hækkun í 120 milljón króna viðskiptum.
Hlutabréfaverð Alvotech lækkaði um rúm 3% í viðskiptum dagsins. Dagslokagengi félagsins var 1.150 krónur eftir 200 milljón króna viðskipti í dag.
Gengi Play lækkaði einnig um 3% í örviðskiptum. Dagslokagengi Play var 0,45 krónur.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,21% og var heildarvelta á markaði 2,4 milljarðar.