Hlutabréfaverð Ísfélagsins hækkaði um 6,5% í um 104 milljón króna viðskiptum í dag.
Dagslokagengi félagsins var 114 krónur á hlut sem er þó enn 24% lægra en í ársbyrjun. Útboðsgengi í aðdraganda skráningar félagsins var 130 krónur en félagið lokaði í 153 krónum á hlut á fyrsta viðskiptadegi.
Tvöföldun veiðigjalda og loðnubrestur hefur þó haft áhrif á gengi félagsins sem og gengi annarra sjávarútvegsfélaga.
Von um loðnu?
Bráðabirgðaniðurstöður mælinga Hafrannsóknarstofnun sýndi loðnu á mjög stóru svæði fyrir norðan land, sem ætti að vekja bjartsýni, en niðurstöður mælinga fyrir makríl voru þó vonbrigði.
Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hækkaði einnig í viðskiptum dagsins er gengi félagsins fór upp úr 3,6% í 85 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Síldarvinnslunnar var 72 krónur á hlut.
Gengi Sýnar lækkaði um rúm 5% í viðskiptum dagsins og lokaði í 28,4 krónum á hlut.
Hlutabréfaverð JBT Marel gaf hækkanir gærdagsins eftir og lækkaði um 3,5% en félagið birti árshlutauppgjör á mánudagskvöldið.
Gengi Alvotech hélt áfram að lækka en hlutabréfaverð félagsins fór niður um tæp 3%. Dagslokagengið var 1.060 krónur á hlut en félagið mun birta árshlutauppgjör um miðjan mánuð.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,91% og var heildarvelta á markaði 2,9 milljarðar.