Hlutabréfaverð JBT Marel hækkaði um rúm 6% í viðskiptum dagsins eftir árshlutauppgjör eftir lokun markaða vestanhafs í gærkvöldi.
Dagslokagengi félagsins var 17.300 krónur eftir rúmlega 430 milljón króna viðskipti í dag. Gengi félagsins hefur nú hækkað um 13% síðastliðinn mánuð.
Samkvæmt uppgjörinu er undirliggjandi rekstur félagsins sterkur þrátt fyrir ýmsar áskoranir í ytra umhverfi.
Rekstrarhagnaður JBT Marel, sameinaðs félags Marel og bandaríska tæknifyrirtækisins JBT, fyrir afskriftir og einskiptiskostnað (e. adjusted EBITDA) nam 268 milljónum dala á fyrstu sex mánuðum ársins.
Tekjur félagsins á sama tímabili námu 1.789 milljónum dala en samkvæmt reikningsskilareglum í Bandaríkjunum (GAAP) var bókfært tap á tímabilinu þó 169,6 milljónir dala, einkum vegna kostnaðar sem tengist samruna félaganna og uppgjöri lífeyrisskuldbindinga í Bandaríkjunum.
Pantanir á öðrum ársfjórðungi námu 938 milljónum dala og félagið segir meira en helming tekna nú koma frá reglubundinni þjónustu, varahlutum og öðrum endurteknum tekjustraumum. JBT Marel telur það styrkja rekstrargrundvöll félagsins.
Fyrirtækið gerir ráð fyrir að tekjur ársins í heild verði á bilinu 3.675 til 3.725 milljónir dala. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (e. adjusted EBITDA) er áætlaður á bilinu 560 til 595 milljónir dala, sem samsvarar um 15,25 til 16 prósenta framlegð.
Hlutabréfaverð Alvotech lækkaði um 3,5% í viðskiptum dagsins í tæplega 90 milljón króna veltu. Dagslokagengi félagsins var 1.090 krónur á hlut.
Alvotech birtir árshlutauppgjör um miðjan mánuð.
Gengi Sýnar lækkaði um rúm 3% og lokaði í 30 krónum á hlut. Gengi félagsins hefur verið á miklu skriði síðastliðinn mánuð og hækkað um 11% þrátt fyrir lækkun dagsins.
Sýn stendur nú í ströngu við Símann en Fjarskiptastofa heimilaði í síðustu viku Símanum að sýna efni Sýnar í gegnum myndlykla sína. Sýn hefur kært ákvörðun FST til úrskurðarnefndar.
Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 0,14% og var heildarvelta á markaði 2,1 milljarðar.