Hluta­bréfa­verð JBT Marel hækkaði um rúm 6% í við­skiptum dagsins eftir árs­hluta­upp­gjör eftir lokun markaða vestan­hafs í gærkvöldi.

Dagsloka­gengi félagsins var 17.300 krónur eftir rúm­lega 430 milljón króna við­skipti í dag. Gengi félagsins hefur nú hækkað um 13% síðastliðinn mánuð.

Sam­kvæmt upp­gjörinu er undir­liggjandi rekstur félagsins sterkur þrátt fyrir ýmsar áskoranir í ytra um­hverfi.

Rekstrar­hagnaður JBT Marel, sam­einaðs félags Marel og bandaríska tækni­fyrir­tækisins JBT, fyrir af­skriftir og ein­skiptis­kostnað (e. adju­sted EBITDA) nam 268 milljónum dala á fyrstu sex mánuðum ársins.

Tekjur félagsins á sama tíma­bili námu 1.789 milljónum dala en sam­kvæmt reiknings­skila­reglum í Bandaríkjunum (GAAP) var bók­fært tap á tíma­bilinu þó 169,6 milljónir dala, einkum vegna kostnaðar sem tengist sam­runa félaganna og upp­gjöri líf­eyris­skuld­bindinga í Bandaríkjunum.

Pantanir á öðrum árs­fjórðungi námu 938 milljónum dala og félagið segir meira en helming tekna nú koma frá reglu­bundinni þjónustu, vara­hlutum og öðrum endur­teknum tekju­straumum. JBT Marel telur það styrkja rekstrar­grund­völl félagsins.

Fyrir­tækið gerir ráð fyrir að tekjur ársins í heild verði á bilinu 3.675 til 3.725 milljónir dala. Rekstrar­hagnaður fyrir af­skriftir (e. adju­sted EBITDA) er áætlaður á bilinu 560 til 595 milljónir dala, sem sam­svarar um 15,25 til 16 pró­senta fram­legð.

Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech lækkaði um 3,5% í við­skiptum dagsins í tæp­lega 90 milljón króna veltu. Dagsloka­gengi félagsins var 1.090 krónur á hlut.

Al­vot­ech birtir árs­hluta­upp­gjör um miðjan mánuð.

Gengi Sýnar lækkaði um rúm 3% og lokaði í 30 krónum á hlut. Gengi félagsins hefur verið á miklu skriði síðastliðinn mánuð og hækkað um 11% þrátt fyrir lækkun dagsins.

Sýn stendur nú í ströngu við Símann en Fjar­skipta­stofa heimilaði í síðustu viku Símanum að sýna efni Sýnar í gegnum mynd­lykla sína. Sýn hefur kært ákvörðun FST til úr­skurðar­nefndar.

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 lækkaði um 0,14% og var heildar­velta á markaði 2,1 milljarðar.