Hluta­bréfa­verð Play lækkaði um 23% í við­skiptum dagsins og var dagsloka­gengið 0,46 krónur. Mun það vera lægsta gengi í sögu félagsins en það stóð lengi vel í 0,39 krónum innan dags.

Rétt fyrir lokun markaða fór gengið úr 0,39 krónum upp í 0,46 í nokkrum ör­við­skiptum.

Markaðsvirði Play er því komið undir 1 milljarð í fyrsta sinn í sögu félagsins. Á núverandi verðlagi hefur Play alls sótt um 21 milljarð króna í nýtt hluta­fé frá fyrsta rekstrarárinu 2021.

Þrátt fyrir þessa miklu lækkun er félagið þó langt frá því að vera í brott­falls­hættu sam­kvæmt skráningar­reglum Kaup­hallarinnar.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Nas­daq færist félag á at­hugunar­lista ef markaðsvirði þess helst undir 1 milljón evra, eða um 143 milljónum króna á núverandi gengi, til lengri tíma.

Enn lækkar Alvotech

Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech lækkaði um 2,3% í tæp­lega 198 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi félagsins var 1.050 krónur á hlut en gengið hefur lækkað um 40% á árinu.

Gengi Icelandair lækkaði einnig í við­skiptum dagsins og lokaði í 1,06 krónum á hlut eftir tæp­lega 1% lækkun.

Sýn var eina skráða félagið sem hækkaði um meira en 1% í við­skiptum dagsins. Hluta­bréfa­verð Sýnar hækkaði um 1,3% í 15 milljón króna við­skiptum og lokaði í 32 krónum á hlut.

Úr­vals­vísi­talan lækkaði um 0,36% og var heildar­velta á markaði 2 milljarðar. Af þeirri heildar­veltu var 1,1 milljarða velta með bréf Ís­lands­banka.