Atlas Primer er gervigreindur einkakennari, en forritið byggir á hljóði og samræðugervigreind sem getur spilað námsefni hvar sem er, eins og fyrirlestra, greinar, bækur og leifturspjöld. Nemandi getur jafnframt tekið próf, látið spyrja sig, en einnig spurt spurninga, allt á töluðu máli.

„Ég var að kenna í HR sem stundakennari árið 2013 og deildi þar reynslu minni sem stjórnunarráðgjafi með nemendum. Ég sagði sögur og talaði af reynslu, en fékk alltaf spurninguna „verður þetta á prófinu"? Þá fór smám saman að rifjast upp fyrir mér álagið og streitan sem fylgir því að vera nemandi," segir Hinrik Jósafat Atlason, framkvæmdastjóri og stofnandi Atlas Primer. Hann segir að hann hafi þá farið að skoða hvernig hægt væri að gera námsumhverfið sveigjanlegra og skilvirkara í von um að fólk gæti byrjað aftur að njóta þess að læra eitthvað nýtt.

Hinrik segir að endurhugsa þurfi hvernig best sé að læra þar sem samfélagið er að tæknivæðast. „Nám þarf að vera einstaklingsmiðað, annars er það útilokandi fyrir alla sem falla ekki að einu ákveðnu kennslufyrirkomulagi, eins og að sitja alltaf á ákveðnum stað á ákveðnum tíma og fá efnið matreitt á ákveðinn hátt."

Hann bendir á að um 20% nemenda eigi við námsörðugleika að stríða og bætir við að hlutfallið sé líklega um 30% hjá yngri kynslóðum. „Við fundum strax mikla þörf frá nemendum með námsörðugleika á borð við lesblindu og ADHD og vildum aðstoða þann hóp sérstaklega. Það er ótrúlega mikið af greindu og efnilegu fólki sem fær ekki sömu tækifæri og aðrir vegna þess hversu útilokandi kerfi sem byggir aðallega á lestri og kyrrsetu raunverulega er.

Hinrik segir skort á kennurum og tímaskort þeirra kennara sem eru starfandi vera helstu takmarkanir í menntamálum í dag. Með því að sjálfvirknivæða hluta kennarastarfsins með tækni, eins og flutning fyrirlestra, eftirfylgni við nemendur og yfirferð verkefna, gæti kennarinn einbeitt sér að því sem vélar geta ekki, eins og að skapa nýtt og frumlegt námsefni. Þannig verði kennarar ekki óþarfir heldur fá aukið vægi og geta þar með kennt fleirum. „Lykilatriðið er aukin skilvirkni í kerfinu, m.a. með auknu aðgengi að námsefni svo hægt sé að læra annars staðar en aðeins í stofu eða við skjá, heldur líka í bílnum, í ræktinni eða heima á meðan verið er að elda."

Stefna til Bandaríkjanna

Atlas Primer var stofnað árið 2020 og hefur vaxið hratt síðan þá. „Við fengum IVS (Iceland Venture Studio) til liðs við okkur við stofnun félagsins og fengum styrk frá TÞS (Tækniþróunarsjóði) sama ár. Núna í desember var svo samþykkt uppfærsla í styrktarflokkinn fyrir ofan hjá TÞS, sem skiptir okkur miklu máli."

Fyrirtækið var auk þess valið af HolonIQ í hóp 50 mest lofandi sprotafyrirtækja í menntatækni á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Það var einnig valið af GSV Cup Elite 200 í hóp 200 efnilegustu menntasprotafyrirtækja í heiminum og fékk um leið sæti í undanúrslitum í stærstu lyftukynningarkeppni í heimi fyrir menntatæknifyrirtæki sem haldin verður í San Diego í apríl á þessu ári.

Eftir gott gengi á Íslandi og farsælt samstarf við HR og Bifröst segir Hinrik fyrirtækið stefna út, sérstaklega til Bandaríkjanna. „Það er aldrei að vita nema Atlas Primer, sem er talþjónn, verði með okkur í Bandaríkjunum að spjalla við fólk. Lausnin er nú þegar byrjuð að tala aðeins við fjárfesta fyrir okkar hönd en við erum að slípa það aðeins til áður en við förum til Bandaríkjanna, því þar munum við hitta mjög stóra fjárfestingasjóði sem sérhæfa sig í menntatækni.“

Nánar er fjallað um Atlas Primer í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .