Fjár­laga­skrif­stofa bandaríkjaþings(CBO) gerir ráð fyrir að skuldir ríkisins hækki úr um 100% af vergri lands­fram­leiðslu í 156% árið 2055, miðað við óbreyttar for­sendur.

En í nýrri sviðs­mynd segir CBO að ef ár­leg fram­leiðni aukist um 0,5 pró­sentu­stig meira en grunn­spáin gerir ráð fyrir, meðal annars vegna gervi­greindar, gætu skuldir stöðvast við um 113% af lands­fram­leiðslu, án þess að grípa þyrfti til niður­skurðar.

Fjár­festingarfélagið Apollo segir að gervi­greind gæti þannig „leyst skulda­vanda Bandaríkjanna“. Slíkt gæti gerst ef tæknin eykur fram­leiðni nægi­lega til að auka hag­vöxt og draga úr skulda­hlut­falli.

Í leiðara Financial Times í dag er þó varað við of mikilli bjartsýni í þessum efnum.

Í fyrsta lagi hefur ný tækni í sögu­legu sam­hengi haft ófyrir­sjáan­leg áhrif á fram­leiðni – tölvur og stafrænar lausnir skiluðu til dæmis miklum ávinningi á árunum 1995–2005 en minni ára­tugina þar á eftir.

Í öðru lagi hefur tækninýting verið afar misjöfn milli fyrir­tækja, sem gæti orðið enn meiri áskorun með gervi­greind.

Í þriðja lagi gæti aukin fram­leiðni valdið veru­legum sam­félagsáföllum þar sem áætlanir gera ráð fyrir að tæknin kunni að leysa af hólmi helming starfa í Bandaríkjunum fyrir 2034.

JP­Morgan telur að gervi­greind gæti haft mælan­leg áhrif á fram­leiðni á aðeins sjö árum, mun hraðar en fyrri tækni­byltingar.

Á móti vantar Bandaríkin enn heild­stæða stefnu til að mæta þeim sam­félags- og vinnu­markaðs­breytingum sem gætu fylgt. Ef slíkar að­gerðir bætast ekki við gæti sam­félags­leg ólga dregið úr hag­vexti og spillt fyrir fjár­laga­bótum.

Þrátt fyrir varnaðar­orð byggir hag­stjórnar­teymi Trump á þeirri bjartsýnu CBO-sviðs­mynd að gervi­greind, ásamt minni reglu­verki, leiði til meiri hag­vaxtar, minni verðbólgu og lægri skulda – og að Bandaríkin hagnist mest á þessari þróun í alþjóð­legum saman­burði.

FT bendir á að þetta sé kannski draumsýn, jafn­vel „gervi­greindar­halli“, en að fjár­festar í bæði ríkis­skulda­bréfum og tækni­geiranum ættu að fylgjast náið með þessari ólík­legu en áhrifa­miklu sviðs­mynd.