Fjárlagaskrifstofa bandaríkjaþings(CBO) gerir ráð fyrir að skuldir ríkisins hækki úr um 100% af vergri landsframleiðslu í 156% árið 2055, miðað við óbreyttar forsendur.
En í nýrri sviðsmynd segir CBO að ef árleg framleiðni aukist um 0,5 prósentustig meira en grunnspáin gerir ráð fyrir, meðal annars vegna gervigreindar, gætu skuldir stöðvast við um 113% af landsframleiðslu, án þess að grípa þyrfti til niðurskurðar.
Fjárfestingarfélagið Apollo segir að gervigreind gæti þannig „leyst skuldavanda Bandaríkjanna“. Slíkt gæti gerst ef tæknin eykur framleiðni nægilega til að auka hagvöxt og draga úr skuldahlutfalli.
Í leiðara Financial Times í dag er þó varað við of mikilli bjartsýni í þessum efnum.
Í fyrsta lagi hefur ný tækni í sögulegu samhengi haft ófyrirsjáanleg áhrif á framleiðni – tölvur og stafrænar lausnir skiluðu til dæmis miklum ávinningi á árunum 1995–2005 en minni áratugina þar á eftir.
Í öðru lagi hefur tækninýting verið afar misjöfn milli fyrirtækja, sem gæti orðið enn meiri áskorun með gervigreind.
Í þriðja lagi gæti aukin framleiðni valdið verulegum samfélagsáföllum þar sem áætlanir gera ráð fyrir að tæknin kunni að leysa af hólmi helming starfa í Bandaríkjunum fyrir 2034.
JPMorgan telur að gervigreind gæti haft mælanleg áhrif á framleiðni á aðeins sjö árum, mun hraðar en fyrri tæknibyltingar.
Á móti vantar Bandaríkin enn heildstæða stefnu til að mæta þeim samfélags- og vinnumarkaðsbreytingum sem gætu fylgt. Ef slíkar aðgerðir bætast ekki við gæti samfélagsleg ólga dregið úr hagvexti og spillt fyrir fjárlagabótum.
Þrátt fyrir varnaðarorð byggir hagstjórnarteymi Trump á þeirri bjartsýnu CBO-sviðsmynd að gervigreind, ásamt minni regluverki, leiði til meiri hagvaxtar, minni verðbólgu og lægri skulda – og að Bandaríkin hagnist mest á þessari þróun í alþjóðlegum samanburði.
FT bendir á að þetta sé kannski draumsýn, jafnvel „gervigreindarhalli“, en að fjárfestar í bæði ríkisskuldabréfum og tæknigeiranum ættu að fylgjast náið með þessari ólíklegu en áhrifamiklu sviðsmynd.