Gistinóttum á hótelum hér á landi fjölgaði um 9,4% í júní sam­kvæmt bráða­birgðatölum Hag­stofu Ís­lands.

Alls voru skráðar tæp­lega 534.000 gistinætur á hótelum í mánuðinum, saman­borið við rúm­lega 488.000 í júní í fyrra.

Fjölgunin náði til allra lands­hluta en mest var hún á Vestur­landi og Vest­fjörðum (30,5%), Austur­landi (21,5%), Suður­nesjum (11,3%) og Suður­landi (9,9%).

Á Norður­landi var aukningin 6,3% og á höfuð­borgar­svæðinu 5,8%. Á höfuð­borgar­svæðinu fjölgaði gistinóttum um tæp 14.000 og um 32.000 í öðrum lands­hlutum saman­lagt.

Er­lendir ferða­menn stóðu undir 91% allra gistinátta á hótelum í júní, eða rúm­lega 488.000, sem er 12,4% aukning frá fyrra ári. Gistinætur Ís­lendinga drógust hins vegar saman um 14,6% milli ára og voru tæp­lega 46.000.

Bandaríkja­menn voru fjöl­mennastir meðal gesta og fjölgaði gistinóttum þeirra um 8,4%.

Þar á eftir komu Þjóðverjar (24,4%), Bretar (19,4%) og Kín­verjar (70,7%). Á fyrri helmingi ársins jukust gistinætur er­lendra ferða­manna á hótelum um 5,4%, en gistinóttum Ís­lendinga fækkuðu um 3,2%.

Nýting hótel­her­bergja jókst um 7 pró­sentu­stig á landsvísu og mældist hæst á Suður­landi (84,7%) og á höfuð­borgar­svæðinu (81,6%). Mest jókst nýtingin þó á Vestur­landi og Vest­fjörðum (17,8 stig) og Austur­landi (16,2 stig).

Fram­boð hótel­her­bergja breyttist lítið í júní. Mest jókst það á Vestur­landi og Vest­fjörðum (2,5%) og Suður­nesjum (1,0%), en dróst saman á Austur­landi (-2,1%) og Suður­landi (-0,9%). Alls voru 177 hótel opin í júní, með sam­tals 12.100 her­bergi, þar af 60 hótel á höfuð­borgar­svæðinu og 47 á Suður­landi.

Þegar litið er til allra skráðra gististaða (þ.m.t. gisti­heimila, tjaldsvæða og or­lofs­húsa) var áætlaður heildar­fjöldi gistinátta í júní rúm­lega 1.192.000, sem er 8,4% aukning frá fyrra ári. Rúm­lega 708.000 gistinætur voru á hótelum og gisti­heimilum og um 484.000 á öðrum gististöðum.

Á fyrstu sex mánuðum ársins voru alls 3.984.000 gistinætur skráðar á öllum tegundum gististaða, sem er 4,8% aukning miðað við sama tíma­bil í fyrra.