„Þetta leggst mjög vel í mig. Fram undan eru áskoranir vegna þess sem er að gerast í heiminum, en ég er bjartsýn að eðlisfari og er spennt að takast á við komandi verkefni með mínu orkumikla samstarfsfólki," segir Kristín Björg Árnadóttir, nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs Orkunnar, dótturfélags Skeljungs.

Hún segir áhugaverðar áskoranir fram undan hvað varðar orkuskiptin, en Orkan ætlar að leggja áherslu á að bjóða viðskiptavinum sínum umhverfisvæna endurnýjanlega orkugjafa. „Við erum ungt félag en með sterk bein. Við erum ein á markaði sem bjóðum jarðefnaeldsneyti, vetni og metan auk hraðhleðslustöðva í samstarfi við Orku náttúrunnar," segir Kristín.

Félagið rekur fjölorkustöðvar og verslanir undir merkjum Orkunnar, 10-11 og Extra. Auk þess heyra Löður, Lyfsalinn og Gló undir samstæðu Orkunnar. „Við viljum bjóða upp á þjónustu bæði fyrir bílinn og einstaklinginn, að fólk geti náð í lyf og fengið sér mat á sama tíma og það tekur bensín eða hleður bílinn." Hún segir Orkustöðina á Vesturlandsvegi vera gott dæmi um hvernig hún sjái fyrir sér Orkustöðvarnar til framtíðar.

Síðastliðin 20 ár hefur Kristín starfað við fjármálastjórnun fyrirtækja og starfaði síðast sem fjármálastjóri hjá Torgi, útgáfufélagi Fréttablaðsins og DV. Áður starfaði Kristín sem fjárhagsstjóri hjá Skaganum 3X og síðar meir  á fjármálasviði endurskoðunarfélagsins Deloitte.

Kristín segir laxveiðina vera helsta áhugamál sitt. „Þetta er fyrst og fremst hjónasport og okkar leið til að slappa af." Hún er gift Rögnvaldi Erni Jónssyni, fasteignasala hjá Fold fasteignasölu. Þau búa á Akranesi og eiga fimm börn til samans, á aldrinum 13-23 ára. Kristín er Grundfirðingur en hefur starfað á höfuðborgarsvæðinu frá 2016 þegar hún flutti til Akraness. Hún segir lítið mál að keyra frá Akranesi og til vinnu. „Ég hef vanist því að keyra þessa ferð og hef nýtt bílferðina í ýmis símtöl og að hlusta á hlaðvörp."

Nánar er rætt við Kristínu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .