Viðskiptavinir bankanna hafa í auknum mæli varið sig fyrir styrkingu krónunnar. Þannig var hrein framvirk staða bankanna, þar sem króna er í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli, jákvæð um 139 milljarða króna í lok febrúar síðastliðnum, samkvæmt bráðabirgðatölum. Til samanburðar var staðan nálægt núlli í byrjun árs 2021, að því er kemur fram í riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika sem kom út í gær.
Um mitt ár 2021 voru samþykkt ný lög um gjaldeyrisviðskipti hérlendis. Strax í kjölfarið setti Seðlabanki Íslands nýjar reglur um afleiðuviðskipti með íslensku krónuna. Reglurnar fólu í sér að öllum væri frjálst að eiga framvirk viðskipti með krónuna og þannig voru reglur um afleiðuviðskipti með gjaldeyri rýmkaðar verulega.
Reglurnar setja þessum viðskiptum þó takmörk því brúttó framvirk gjaldeyrisstaða hvers viðskiptabanka má ekki fara yfir 50% af eiginfjárgrunni. Í riti Seðlabankans segir að þessar auknu heimildir í afleiðuviðskiptum gætu mögulega skýrt hluta fjölgunar á framvirkum viðskiptum á seinni árshelmingi 2021 og það sem af er ári.
Frá áramótum fram að innrás Rússa í Úkraínu hækkaði gengi krónunnar um rúmlega 4%. Seðlabankinn greip fimm sinnum inn á markaðinn á kauphliðinni og keypti gjaldeyri fyrir samtals 11 milljarða króna til að hægja á styrkingunni. Eftir að stríðið braust út tók krónan að veikjast. Bankinn seldi gjaldeyri þrisvar sinnum í febrúar og mars fyrir samtals 10 milljarða króna, þar af 9 milljarða í byrjun mars, til að hægja á veikingu krónunnar.
Ekki miklar áhyggjur af fasteignamarkaði
Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar segir að nefndin telji aðhaldsstig lánþegaskilyrða nægjanlegt enn sem komið er enda hafi áhrif fyrri ákvarðana ekki komið fram að fullu.
Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis, segir í samtali við Viðskiptablaðið að miðað við yfirlýsinguna virðist nefndin ekki hafa teljandi áhyggjur af fasteignamarkaðnum. „Að einhverju leyti virðist það vera sannfæring fjármálastöðugleikanefndar að það fari von bráðar að hægja verulega á fasteignamarkaði."
Samkvæmt nýjustu tölum Þjóðskrár hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir síðastliðna tólf mánuði um 22,5%. Þar af hækkaði verð á fjölbýli um 21,4% og sérbýli um 26,8%. Þá hafði auglýstum íbúðum til sölu á höfuðborgarsvæðinu í febrúar síðastliðnum fækkað um 69% frá upphafi árs 2020.
„Það má velta því fyrir sér hvort nefndin meti að það sé einfaldlega of seint að grípa til aðgerða," segir Konráð. „Í það minnsta er ljóst að Seðlabankinn var ekki að búast við svona miklum verðhækkunum."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .