Fyrirhugað er leggja niður gjaldtöku á innlánsstofnanir í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta (TIF). Jafnframt verður ekki tekið upp sérstakt gjald til fjármögnunar á nýjum skilasjóð. Þetta kemur fram í drögum að áformuðu frumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, en Innherji greindi frá þessu í morgun.
Í greinargerð kemur fram að með þessum breytingum verði hægt að draga úr kostnaði við fjármálaþjónustu að því marki sem gjöldum í TIF hafi verið velt yfir á neytendur.
Árlegt framlag viðskiptabankanna þriggja til TIF var að jafnaði samtals 2,5-3,5 milljarðar á árunum 2009 til 2019. Greiðslurnar hafa þó minnkað eftir að iðgjaldshlutfallið var lækkað árið 2019. Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs námu greiðslur Arion banka til TIF 411 milljónum og hjá Íslandsbanka 517 milljónum.
Lagt er til að nýi skilasjóðurinn verði fjármagnaður með flutningi eigna úr TIF í skilasjóð. Heildareignir TIF síðastliðið haust námu 49 milljörðum króna en áformað er að tæplega 25 milljarðar verði fluttir úr TIF í skilasjóð. Eftir þessa breytingu yrðu heildareignir innstæðudeildar TIF 21,8 milljarðar eða 2% af tryggðum innstæðum og heildareignir skilasjóðs 27,3 milljarðar sem samsvarar 2,5% af tryggðum innstæðum.
„Á síðustu árum hefur hlutverk TIF breyst nokkuð og ekki er talið að flutningur eigna úr honum yfir í skilasjóð komi niður á innstæðueigendum. Vel fjármagnaður skilasjóður er jafnframt hagsmunamál fyrir innstæðueigendur og almenning, þar sem honum er ætlað að fjármagna skilameðferð sem er það úrræði sem gert er ráð fyrir að yrði beitt á kerfislega mikilvægan banka í alvarlegum rekstrarvanda,“ segir í greinargerðinni.
Þrátt fyrir tilfærslu fjármuna úr TIF í skilasjóð segir að TIF verði ámeðal stöndugustu innstæðutryggingasjóða á EES svæðinu og eignir sjóðsins tæplega 48% af tryggðum innstæðum lánastofnana sem ekki teljast kerfislega mikilvægar.
Í júní 2020 voru samþykkt á Alþingi lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja (SML). Með SML var nýju fjármögnunarfyrirkomulagi sem nefnist skilasjóður komið á fót sem sérstakri deild í TIF. Hlutverk skilasjóðs er að tryggja skammtímafjármögnun vegna aðgerða sem hægt er að grípa til við skilameðferð fjármálafyrirtækis. Þannig er til dæmis heimilt að nýta fjármuni sjóðsins til eiginfjárframlaga, lánveitinga og ábyrgða.
Samkvæmt SML skal skilasjóður að lágmarki nema 1% af tryggðum innstæðum fyrir árslok 2027, eða sem nemur um 11 milljörðum. Í BRRD tilskipun ESB er gert ráð fyrir að skilasjóður verði fjármagnaður með framlagi frá fjármálafyrirtækjum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið ákvað þó að skilasjóður yrði til að byrja með fjármagnaður með færslu fjármuna úr innstæðudeild TIF í stað þess að innheimta framlög frá lánastofnunum.
Þrátt fyrir tilfærslu fjármuna úr TIF í skilasjóð yrði TIF meðal stöndugustu innstæðutryggingasjóða á EES svæðinu og eignir sjóðsins tæplega 48% af tryggðum innstæðum lánastofnana sem ekki teljast kerfislega mikilvægar. Sjóðirnir yrðu með þessu móti báðir ríflega tvöfalt stærri en áskilnaður er gerður um samkvæmt Evrópureglum.