Ní­gería hefur upp­fært að­ferðir sínar við út­reikning á vergri lands­fram­leiðslu (VLF), sem leiðir til þess að hag­kerfi landsins er nú metið 30% stærra en áður, samkvæmt Financial Times.

Þetta er í fyrsta sinn í meira en ára­tug sem þjóðin, sem er sú fjöl­mennasta í Af­ríku, breytir grunni að reiknimódeli sínu, og tekur nýi út­reikningurinn meðal annars til­lit til ört vaxandi stafræns hag­kerfis, líf­eyris­sjóða og hins óform­lega vinnu­markaðar sem flestir Ní­geríu­búar starfa á.

Með nýju reiknimódeli stendur verg lands­fram­leiðsla Ní­geríu árið 2024 nú í 372,82 billjónum naíra, sem jafn­gildir 244 milljörðum Bandaríkja­dala. Til saman­burðar mat Alþjóða­bankinn lands­fram­leiðslu Ní­geríu áður á 187,76 milljarða dala.

Breyti­leiki í sam­setningu hag­kerfisins kemur glögg­lega fram með nýju út­reikningunum. Land­búnaður stendur nú sem stærsti ein­staki þátturinn í fram­leiðslu þjóðarinnar, á meðan hlut­deild olíu­iðnaðarins hefur dregist saman og nemur nú einungis 5% af VLF.

Með stækkun lands­fram­leiðslunnar lækkar skulda­hlut­fall ríkisins um­tals­vert. Fyrir endur­út­reikninginn voru skuldir ríkisins metnar sem 52% af VLF, en það hlut­fall stendur nú við 40%, sem er í samræmi við sjálf­sett viðmið stjórn­valda og vel undir 55% þol­mörkum Alþjóða­bankans og Alþjóða­gjald­eyris­sjóðsins.

Sér­fræðingar vara þó við að tölu­legur ávinningur geti dregið at­hygli frá raun­veru­legri skuldastöðu.

„Hærri VLF-tala gæti leitt til slakari áherslu stjórn­valda á sjálf­bærni skulda,“ sagði Michael Famor­oti, hag­fræðingur hjá hug­veitunni Stears í Lagos. „Það dregur ein­fald­lega tíma­bundið fjöður yfir undir­liggjandi áskoranir.“

Ní­gería er ekki eina landið sem horfir til nýrra mæli­að­ferða. Í síðustu viku til­kynnti fjár­málaráðu­neyti Senegal að það hyggðist bráð­lega upp­færa VLF-gögn sín í fyrsta sinn síðan 2018 í kjölfar hneykslis­mála vegna leyndar­skulda sem gætu haft í för með sér að skulda­hlut­fall landsins fari vel yfir raun­hæfa VLF.

Bank of America segir í nýrri greiningu að slík breyting gæti bætt skulda­hlut­fall landsins og skapað trúverðug­leika á mörkuðum. Ríkis­skulda­bréf Senegal hafa hækkað eftir til­kynninguna, þrátt fyrir að Alþjóða­gjald­eyris­sjóðurinn hafi sett björgunar­pakka í bið þar til lokið hefur verið rannsókn á skulda­hneykslinu.

Endur­mat á lands­fram­leiðslu Ní­geríu stað­festir þá mynd að hag­kerfi þróunarríkja geta breyst veru­lega á skömmum tíma, sér­stak­lega með vexti stafræns at­vinnulífs. Þó að nýja töl­fræðin bæti út­lit lykilvísi­talna eins og skulda­hlut­falls má ekki gleyma að raun­veru­leg sjálf­bærni opin­berra fjár­mála byggir ekki á tölum einum saman.