Útlit er fyrir að hagnaðarhlutfall í viðskiptahagkerfinu hafi dregist saman þriðja árið í röð miðað við niðurstöður úttektar Viðskiptablaðsins á rekstrarniðurstöðum stærstu fyrirtækja landsins sem hafa birt ársreikning fyrir árið 2024.
Úttektin nær til 177 af 300 stærstu fyrirtækjum landsins eftir veltu – lista sem nálgast má í 500 stærstu, riti Frjálsrar verslunar, sem kom út í desember síðastliðnum. Samanlögð velta fyrirtækjanna í úttektinni nemur um 4.337 milljörðum króna eða um 60% af viðskiptahagkerfinu.
Vegið hagnaðarhlutfall umræddra fyrirtækja var 6,6% á árinu 2024 samanborið við 7,3% árið 2023. Hagnaðarhlutfall mælir hagnað sem hlutfall af veltu fyrirtækja.
Hagnaðarhlutfall 300 stærstu fyrirtækja landsins var 5,7% árið 2023, samanborið við 8,6% árið 2022, 11,4% árið 2021 og 2,9% árið 2020, samkvæmt grein Ólafs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Birtu lífeyrissjóðs, í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í apríl sl. Hagnaðarhlutfallið var að jafnaði um 7,6% á árunum 2014-2023.
Þess má geta að misræmi á hagnaðarhlutfallinu fyrir árið 2023 skýrist annars vegar af því að í úttekt Viðskiptablaðsins ná tölur fyrir árið 2023 aðeins til fyrirtækja sem hafa skilað ársreikningi árið 2024 ásamt því að leitast var eftir að undanskilja fyrirtæki sem eru í eigu annarra fyrirtækja á listanum. Úttektinni er aðeins ætlað að gefa vísbendingu um þróun hagnaðarhlutfallsins milli ára.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.