242,4 milljóna króna tap var á rekstri Félagsbústaða á fyrri hluta ársins, áður en tekið er tillit til 3,4 milljarða króna matshækkunar á fasteignum félagsins. Er það 35,7% meira tap en árið áður, þegar það nam 178,6 milljónum króna, fyrir matsbreytingu eigna.

Að teknu tilliti til matsbreytingarinnar nam hagnaður tímabilsins hins vegar 3.143,2 milljónum króna, sem er 130% aukning frá sama tíma fyrir ári þegar hagnaðurinn, að teknu tilliti til rúmlega 1,5 milljarða matsbreytingu, nam tæplega 1,4 milljónum króna.

Tekjurnar aukast um 7,5%

Rekstrartekjurnar námu rétt rúmlega 2,1 milljarði króna, sem er aukning um 7,5% frá árinu áður þegar þær námu rétt tæplega 2 milljörðum króna.

Rekstarhagnaðurinn fyrir 600 milljóna króna vaxtagjöld af 42,3 milljarða króna skuldum félagsins koma til nam 1.049,3 milljónum króna. Er það hækkun um 21,4% frá árinu sama tíma fyrir ári, úr 879,1 milljónum króna. Afkoman fyrir fjármagnsliði nam því 473,1 milljón króna, sem er hækkun um 66% frá 284,9 milljóna króna EBIT fyrir sama tímabil fyrir ári.

Til viðbótar við það koma svo 715,5 milljóna króna verðbætur langtímalána en það er aukning frádráttar vegna þess frá árinu áður þegar verðbæturnar námu 463,5 milljónum.

Eigið fé 46 milljarðar króna

Eigið fé Félagsbústaða jókst um 7,6% frá ársbyrjun, eða úr 42,6 milljörðum króna í 45,9 milljarða króna. Á sama tíma jukust skuldirnar um 3%, úr 41 milljarði í 42,3 milljarða króna. Heildareignirnar jukust því um 6,9%, úr 83,7 milljörðum króna í 89,5 milljarða, meðan eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 50,9% í 51,3%.

Rekstur og viðhald eigna lækkar um 40 milljónir króna, eða um 3,7% á milli ára. Fjárfestingareignir jukust um 6,3% eða 5.274 milljónir króna en fjárfest var fyrir 1.809 milljónir króna þegar félagið keypti 22 fasteignir. Hyggst það fjölga leigueiningum um 125 á árinu í heild. Tekin voru ný langtímalán hjá Lánasjóði sveitarfélaga fyrir 3 milljarða en stofnframlög frá ríki og borg námu 304 milljónum króna á tímabilinu.