Festi, móðurfélag N1, Krónunnar, Lyfju og Elko, hagnaðist um 1,4 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 953 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Hagnaður félagsins á fjórðungnum jókst um 49% milli ára.

Festi birti árshlutauppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag. Félagið segir rekstrarniðurstöðu á tímabilinu hafa verið umfram áætlanir.

Vörusala samstæðunnar nam 43,6 milljörðum króna og jókst um 20,9% milli ára, en hækkaði um 7,3% án áhrifa Lyfju sem kom inn í samstæðuna frá júlí 2024. Félagið segir vörusölu hafa aukist í öllum vöruflokkum og jókst afgreiðslufjöldi um 10,7%.

Framlegðarstig nam 25,3% og hækkar um 1,5 prósentustig frá öðrum ársfjórðungi 2024 og um 0,9% prósentustig frá fyrsta fjórðungi þessa árs.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 3,9 milljörðum króna og hækkaði um 35,1% milli ára en 21,6% án áhrifa Lyfju.

„Rekstur annars ársfjórðungs gekk vel og var niðurstaðan umfram áætlanir. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá að öll félögin, hvert á sínum markaði, eru að auka magnsölu og bæta sínar rekstrarniðurstöður sem sýnir vel sókn þeirra milli ára,” segir Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi.

„Sem fyrr næst góður árangur í lækkun kostnaðar með markvissri vöruþróun, aukinni skilvirkni og endurbættum ferlum sem viðskiptavinir jafnt sem hluthafar njóta í krafti aukinnar stærðarhagkvæmni samstæðunnar.“

Festi hyggst einblína beina kastljósinu sérstaklega að N1 á uppgjörsfundi félagsins á morgun. Magnús Hafliðason, sem tók nýlega við sem framkvæmdastjóri N1, mun þar kynna N1 og verkefni félagsins.

Þess má geta að af 1,7 milljarða króna hagnaði samstæðunnar á fyrri árshelmingi var yfir helmingur vegna Krónunnar eða rúmlega 1,1 milljarður. N1 hagnaðist um 425 milljónir yfir sama tímabil, Elko um 207 milljónir og Lyfja um 96 milljónir.