Málning ehf., móðurfélag Slippfélagsins, skilaði 107 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samanborið við 188 milljóna hagnað árið 2023. Stjórn félagsins lagði til við aðalfund að greiddur verði út arður að fjárhæð 50 milljónir króna í ár.

Málning, sem rekur málningarverksmiðju í Kópavogi, er eini málningarframleiðandinn á Íslandi. Félagið er einnig umboðsaðili fyrir margar tegundir af málningu sem notuð er til skipa, stál- og húsbygginga. Málning rekur málningarverslanir í Reykjavík, Hafnarfirði, Keflavík, Akureyri og Selfossi.

Velta samstæðunnar dróst saman um 1,1% milli ára og nám tæplega 3,2 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður (EBIT) fór úr 205 milljónum í 105 milljónir milli ára.

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins segir að eldsvoði á leiguhúsnæði Slippfélagsins að Fellsmúla 24 í febrúar 2024 hafi haft talsverð áhrif á rekstur dótturfélagsins. Töluverðan tíma hafi tekið að koma búðinni við Fellsmúla í lag en full starfsemi hófst í októbermánuði. Fram kemur að Slippfélagið sé tryggt fyrir tjóninu og vinni í samvinnu við tryggingarfélag sitt að lágmarka tjónið.

Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 1,8 milljarða króna í árslok 2024 og eigið fé var tæplega 1,5 milljarðar.

Málning er í 98% eigu Framherja ehf., sem er að mestu leyti í eigu hjónanna Valdimars Bergstað og Halldóru Baldvinsdóttur.