Þróun efnahagsmála hefur verið sannkölluð rússíbanareið síðustu ár. Frá ferðamannagóðærinu í rólega niðursveiflu, svo efnahagsáfallið sem faraldurinn var og loks sú þensla og hætta á ofhitnun sem stendur yfir í dag.
Árið 2019 var íslenska hagsveiflan á niðurleið eftir blússandi góðæri árin áður, sem helst einkenndust af sprengingu í fjölda ferðamanna og gríðarlegum hækkunum fasteignaverðs. Wow air – sem hafði flogið hátt í uppsveiflunni – riðaði til falls og varð gjaldþrota í mars, og í kjölfarið voru einar harðvítugustu samningaviðræður á almennum vinnumarkaði í seinni tíð kláraðar í hvelli með hinum svokölluðu lífskjarasamningum, til að freista þess að mýkja höggið, enda höfðu þúsund manns misst vinnuna hjá Wow, og eftirköstin voru þónokkur.
En þótt niðursveiflan árið 2019 væri sú fyrsta síðan í hruninu, lauk líkindunum við þær efnahagshamfarir þar. Lendingin var mjúk: enn var hóflegur hagvöxtur, ferðamenn héldu áfram að streyma hingað í milljónatali, skuldastaða heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs góð, fasteignamarkaður í þokkalegu jafnvægi.
Ásgeir Jónsson tók við embætti seðlabankastjóra og hélt áfram vaxtalækkunum forvera síns, úr 4,5% í upphafi árs í 3% í lok þess. Krónan hafði gefið nokkuð eftir haustið áður, en hélt sér vel árið 2019 þegar upp var staðið. Ástandinu fylgdi því ekki það verðbólguskot og þær vaxtahækkanir sem þyngt höfðu róðurinn í fyrri niðursveiflum. Þvert á móti féll verðbólga hratt frá hápunkti sínum í 3,6% um vorið, og mældist aðeins 1,7% í janúar 2020.
Mjúk lending verður að frjálsu falli
Allar horfur voru á að þjóðin myndi sigla í gegnum lægðina nokkuð áfallalaust. Fall Wow yrði líklega það eina minnisstæða við tímabilið. Þessa dagana muna hinsvegar líklega fæstir einu sinni eftir því að það hafi verið niðursveifla 2019.
Í ársbyrjun 2020 fóru að berast fréttir af nýrri kórónuveiru í Kína. Aðrar slíkar farsóttir höfðu skotið upp kollinum nokkrum sinnum á síðustu áratugum án mikilla áhrifa á daglegt líf eða hagkerfi vesturlanda. Hagfræðingar spáðu því að röskun á viðsiptum við Asíu gæti valdið lítilsháttar búsifjum, eitthvað vel undir 1% vergrar landsframleiðslu, bæði hér og á heimsvísu.
Nánar er fjallað um þróun og stöðu efnahagsmála í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .