Wesley LePatner, framkvæmdastjóri fasteignasjóðsins Breit og einn af lykilstjórnendum Blackstone, lést í skotárás í anddyri höfuðstöðva fyrirtækisins á Park Avenue í New York á mánudaginn samkvæmt The Wall Street Journal.
LePatner, sem var 43 ára, reyndi að forða sér á bak við súlu þegar árásarmaður hóf skothríð í húsnæðinu.
Árásin varð fjórum að bana en einn starfsmaður NFL-deildarinnar, sem einnig hefur aðsetur í byggingunni, er enn í lífshættu. Árásarmaðurinn svipti sig lífi á vettvangi.
Samkvæmt The Wall Street Journal hafði LePatner gegnt lykilhlutverki í fasteignastarfsemi Blackstone og var yfirmaður svonefnds Core+ sviðs, sem hefur umsjón með stöðugri og áhættuminni eignafjárfestingum í 325 milljarða evra fasteignasafni félagsins.
Hún tók einnig nýverið við sem framkvæmdastjóri Breit, sjóðs sem beinir sér að almennum fjárfestum.
Hún hafði unnið hjá Blackstone frá árinu 2014, eftir ellefu ár í fasteignadeild Goldman Sachs.
LePatner lauk námi við Yale og bjó í Manhattan ásamt eiginmanni sínum, Evan LePatner, og tveimur börnum.
Jonathan Gray, framkvæmdastjóri Blackstone, lýsti LePatner sem einstakri manneskju:
„Hún gaf öðrum traust. Hún var fagleg, hlý og metnaðarfull og ein vinsælasta manneskjan í fyrirtækinu.“
LePatner var þekkt innan Blackstone fyrir að ýta undir framgang kvenna innan fyrirtækisins.
Hún hvatti samstarfskonur til að taka sér stærra hlutverk, veitti þeim ráðgjöf og studdi þær við framgang. Kathleen McCarthy, meðstjórnandi fasteignasviðs, hafði verið henni fyrirmynd allt frá því þær störfuðu saman hjá Goldman Sachs.
„Hún var manneskja sem skilaði góðum árangri án þess að missa sjónar á gildum eins og heilindum og samkennd,“ sagði McCarthy. „Þetta er sjaldgæf samsetning.“
„Hún var manneskja sem skilaði góðum árangri án þess að missa sjónar á gildum eins og heilindum og samkennd,“ sagði McCarthy.
LePatner var einnig virk í samfélags- og menningarstarfi.
Hún sat í stjórnum Metropolitan Museum of Art, Abraham Joshua Heschel School og Yale University Library Council, og hlaut leiðtogaverðlaun UJA-Federation árið 2023.