Arion banki hefur fært 51 pró­sents hlut sinn í þróunarfélaginu Arnar­landi ehf., sem heldur utan um 9 hektara land­spildu á norðan­verðum Arnar­nes­hálsi sem gengur undir nafninu Arnar­land, til eigna­flokksins „eignir til sölu“.

Arion banki á hlut í Arnar­landi, í gegnum dóttur­félagið sitt Land­ey, á móti 49% hlut Fast­eignafélagsins Akur­ey ehf. sem Kristján Jóhanns­son og Jóhann Ingi Kristjáns­son eiga til helminga.

Sam­kvæmt ný­birtum hálfsárs­reikningi bankans er heildar­eign Arnar­lands metin á 7.062 milljónir króna. Þar af nema fjár­festingar­eignir, sem endur­spegla virði landsins, 6.662 milljónum og aðrar eignir 400 milljónum króna. Skuldir félagsins nema 942 milljónum króna og eru að mestu vegna frestaðra skatta.

Heildar­eigin­fjár­staða félagsins nemur því um 6.120 milljónum króna.

Hlutur Arion banka í eigin fé Arnar­lands, sem nemur 51 pró­senti, hefur því hlut­falls­legt bók­fært virði upp á um 3.121 milljón króna, sam­kvæmt skýringum í upp­gjörinu.

Eignar­hlutur Arion í Arnar­landi var bók­færður á 1,6 milljarða króna í árs­lok 2024.

Þetta virði er nú fært sem eign til sölu í reikningum bankans, þar sem sölu­ferlið er virkt og form­lega hafið.

Bene­dikt Gísla­son banka­stjóri sagði við birtingu upp­gjörsins að virðis­breyting á eignar­hlut bankans í Arnar­landi hafi haft jákvæð áhrif á aðrar rekstrar­tekjur á öðrum árs­fjórðungi.

Arnar­landið er sam­kvæmt samþykktu deili­skipu­lagi ætlað fyrir um 450 íbúðir eða rúm­lega 50.000 fer­metra að íbúðar­byggingum, auk allt að 5.400 fer­metra af at­vinnu­húsnæði, sem að hluta hefur þegar verið selt frá.

Skipu­lagið byggir á blandaðri byggð með áherslu á þjónustu-, heilsu- og hátækni­fyrir­tæki.

Í apríl síðastliðnum til­kynnti Arion banki að félagið hefði hafið sölu­ferli og stefndi að því að selja allan hlut sinn í Arnar­landi.

Á þeim tíma var virði eignar­hlutar bankans í félaginu bók­fært á um 1,6 milljarða króna. Síðan þá hefur virðið vaxið með hlið­sjón af virðis­aukningu og mats­breytingum, og er nú hlut­falls­lega komið í um 3,1 milljarð króna.