Arion banki hefur fært 51 prósents hlut sinn í þróunarfélaginu Arnarlandi ehf., sem heldur utan um 9 hektara landspildu á norðanverðum Arnarneshálsi sem gengur undir nafninu Arnarland, til eignaflokksins „eignir til sölu“.
Arion banki á hlut í Arnarlandi, í gegnum dótturfélagið sitt Landey, á móti 49% hlut Fasteignafélagsins Akurey ehf. sem Kristján Jóhannsson og Jóhann Ingi Kristjánsson eiga til helminga.
Samkvæmt nýbirtum hálfsársreikningi bankans er heildareign Arnarlands metin á 7.062 milljónir króna. Þar af nema fjárfestingareignir, sem endurspegla virði landsins, 6.662 milljónum og aðrar eignir 400 milljónum króna. Skuldir félagsins nema 942 milljónum króna og eru að mestu vegna frestaðra skatta.
Heildareiginfjárstaða félagsins nemur því um 6.120 milljónum króna.
Hlutur Arion banka í eigin fé Arnarlands, sem nemur 51 prósenti, hefur því hlutfallslegt bókfært virði upp á um 3.121 milljón króna, samkvæmt skýringum í uppgjörinu.
Eignarhlutur Arion í Arnarlandi var bókfærður á 1,6 milljarða króna í árslok 2024.
Þetta virði er nú fært sem eign til sölu í reikningum bankans, þar sem söluferlið er virkt og formlega hafið.
Benedikt Gíslason bankastjóri sagði við birtingu uppgjörsins að virðisbreyting á eignarhlut bankans í Arnarlandi hafi haft jákvæð áhrif á aðrar rekstrartekjur á öðrum ársfjórðungi.
Arnarlandið er samkvæmt samþykktu deiliskipulagi ætlað fyrir um 450 íbúðir eða rúmlega 50.000 fermetra að íbúðarbyggingum, auk allt að 5.400 fermetra af atvinnuhúsnæði, sem að hluta hefur þegar verið selt frá.
Skipulagið byggir á blandaðri byggð með áherslu á þjónustu-, heilsu- og hátæknifyrirtæki.
Í apríl síðastliðnum tilkynnti Arion banki að félagið hefði hafið söluferli og stefndi að því að selja allan hlut sinn í Arnarlandi.
Á þeim tíma var virði eignarhlutar bankans í félaginu bókfært á um 1,6 milljarða króna. Síðan þá hefur virðið vaxið með hliðsjón af virðisaukningu og matsbreytingum, og er nú hlutfallslega komið í um 3,1 milljarð króna.