Að huga vel að líðan starfsfólks, bæði andlegri og líkamlegri, er fjárfesting sem mun alltaf borga sig. Ef vinnustaðir leggja metnað í að sínu fólki líði vel þá held ég að það skili sér alltaf í meiri framlegð og betra starfsfólki,“ segir Arnar Sveinn Geirsson, nýr mannauðsstjóri SaltPay á Íslandi.

Hann starfaði síðast hjá Auðnast, sem býður fyrirtækjum heilsumiðaða þjónustu með heildræna vellíðan að leiðarljósi. Áhugi Arnars á andlegri líðan og hegðun fólks leiddi hann í nám við hegðunar- og skipulagssálfræði við London Metropolitan háskólann sem hann lauk nýlega. „Þetta fellur mjög vel að því sem ég er að fást við og mótar mína nálgun á starfið.“

Í Evrópu starfa nú um 1.500 starfsmenn hjá SaltPay, sem var stofnað í Bretlandi árið 2019. Starfsmannahópur SaltPay á Íslandi hefur tekið nokkrum breytingum frá því að alþjóðlega fyrirtækið keypti Borgun árið 2020. Starfsfólki hefur fjölgað töluvert að undanförnu og nálgast nú hundrað talsins. Arnar segir að SaltPay sé að vissu leyti að víkja frá venju á íslenskum fjármálamarkaði með minni kröfum um starfsreynslu en hefur viðgengist.

„Aðaláherslan okkar er að fá inn gott fólk. Við viljum sem dæmi gefa flottu ungu fólki tækifæri sem er ekki með mikla reynslu af atvinnumarkaði. Við reynum fremur að horfa til þess hvaða eiginleika viðkomandi býr yfir, metnaði fólks og viðhorfi til að aðlagast breytingum.“

Arnar er mikill íþróttamaður og varð Íslandsmeistari með Val í fótbolta árin 2017 og 2018. Hann lagði skóna á hilluna fyrir síðasta keppnistímabil til að einblína á önnur áhugamál. Arnar er þó enn nátengdur íslenska fótboltanum og er forseti Leikmannasamtaka Íslands. Þeirri stöðu hefur fylgt því að hann er af og til kallaður Sólveig Anna, með vísan í fyrrverandi formann Eflingar, í hlaðvarpinu Dr. Football.

„Ég hef mjög gaman af þessu. Það er sama hvað fólki finnst um störf Sólveigar Önnu, þá er víst að hún barðist af krafti fyrir sitt félagsfólk. Ég lít á þetta sem merki um að ég sé að berjast fyrir mitt fólk.“

Arnar er auk þess varaformaður Krafts, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur. Móðir hans, Guðrún Helga Arnarsdóttir, greindist í tvígang með krabbamein og lést af þeim völdum árið 2003.

„Ég forðaðist lengi að ræða um þessi mál. Fyrir um fjórum árum síðan kom ekkert annað til greina en að taka á mínum málum og hefja þessa vegferð. Árið 2019 fær Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, mig til að bjóða mig fram í stjórnina. Þetta starf sem þau vinna er ótrúlega flott og það hefur líka hjálpað mikið í minni vegferð að vera partur af þessu.“

Viðtalið við Arnar Svein birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .