Deloitte í Bretlandi hyggst skipta út átta af sextán manna framkvæmdastjórn ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækisins. Átta af æðri meðeigendum (e. senior partners) verður skipt út fyrir sex nýliða, samkvæmt heimildum Financial Times.
Uppstokkunin var kynnt starfsfólki eftir að FT hafði samband við forsvarsmenn fyrirtækisins í gær. Breytingin verður titluð sem „endurglæðing“ (e. refresh) og kynnt sem hefðbundin aðgerð, samkvæmt tveimur heimildarmönnum FT.
„Sérfræðiþjónustufyrirtæki ráðast yfirleitt ekki í uppstokkun á framkvæmdastjórnum sínum. Þau fara hægt í sakirnar,“ er haft eftir einum sérfræðingi hjá ráðningarstofu, spurður um breytingarnar.
Deloitte segir að stór hluti af meðeigendum sem yfirgefa framkvæmdastjórnina muni þó starfa áfram hjá fyrirtækin og gegna „mikilvægum“ stöðum.
Meginástæðan fyrir breytingunum er talin vera áhersla á að fá inn yngra fólk í framkvæmdastjórnina sem verða nægilega ungt til að eiga kost á að taka við af Richard Houston sem forstjóra yfir Deloitte í Norður- og Suður-Evrópu þegar skipunartíma hans lýkur árið 2027. Houston, sem er að hefja sitt seinna fjögurra ára skipunartímabil, stýrir því hverjir sitja í framkvæmdastjórn félagsins.
Í umfjöllun breska dagblaðsins segir að af hinum sex nýju stjórnendum er einungis ein kona. Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn Deloitte í Bretlandi lækkar því úr 37,5% í 28,6%.