Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað Herdísi Steingrímsdóttur, dósent í hagfræði við Copenhagen Business School, í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands til næstu fimm ára. Herdís tekur við af Katrínu Ólafsdóttur, dósent í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, sem setið hefur í peningastefnunefnd í tíu ár, en það er hámarksskipunartími í nefndinni.
Peningastefnunefndar ber m.a. ábyrgð á að viðhalda verðstöðugleika en verðbólgumarkmið nefndarinnar er 2,5%. Peningastefnunefnd tekur ákvörðun um stýirvexti, viðskipti við lánastofnanir og önnur þrautavaralán, ákvarðanir um bindiskyldu og viðskipti á gjaldeyrismarkaði.
Aðrir nefndarmenn í peningastefnunefnd eru Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningamála, Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og Gylfi Zöega, prófessor við Háskóla Íslands. Gylfi var endurskipaður í nefndina í febrúar árið 2018 og því má gera ráð fyrir að skipunartími hans renni út eftir ár.