Hlutabréfavísistalan S&P 500 náði methæðum á fimmtudaginn síðasta í 6.510,9 stigum. Í umfjöllun The Wall Street Journal er vakin athygli á því að S&P 500 hafi aldrei mælst hærri sem hlutfall af heildartekjum félaga í vísitölunni. Svokallað „price-to-sales“ hlutfall vísitölunnar mældist 3,23 á fimmudaginn.
V/H-hlutfall vísitölunnar (e. price-to-earnings ratio), sem mælir hlutfall markaðsvirðis á móti hagnaðar félaganna í vísitölunni, er einnig hátt í sögulegum samanburði og nemur í dag um 22,5 sé litið til áætlaðs hagnaðar á næstu tólf mánuðum. Til samanburðar var hlutfallið að meðaltali 16,8 frá árinu 2000.
Tíu stærstu félögin í S&P 500 vógu um 39,5% af heildarvirði vísitölunnar í lok júlí en hlutfallið hefur aldrei verið hærra. Níu stærstu eru öll með markaðsvirði yfir 1.000 milljarða dala.
Í umfjölluninni segir að margir fjárfestir telji hlutabréf stærstu fyrirtækjanna, sem eru flest tæknifyrirtæki, hverrar krónu virði. Bent er á vöxt fyrirtækja á borð við Nvidia og Microsoft.
Verðmat fyrirtækja í vísitölunni er þó ekki í öllum tilfellum yfir sögulegu meðaltali. Séu félögunum í S&P 500 gefin jafna vigt, fremur en eftir markaðsvirði, þá er price-to-sales hlutfallið 1,76 samanborið við langtímameðaltal upp á 1,43.
Haft er eftir sjóðstjóra hjá Barrow Hanley Global Investors að hann telji enn talsvert um tækifæri á markaðnum fyrir fjárfesta sem eru tilbúnir að horfa til félaga annara en hinna stóru tæknifyrirtækja. Hluti af S&P 500 vísitölunni sé jafnvel undir langtímameðaltali.