Hlutabréfaverð Alvotech hefur hækkað um rúm 4% það sem af er degi og stendur gengið í 1.180 krónum á hlut þegar þetta er skrifað.
Töluverð velta hefur verið með bréf félagsins í morgun en stærstu einstöku viðskiptin áttu sér stað rétt fyrir hádegi er viðskipti með 60 þúsund hluti fóru í gegn á genginu 1.175 krónur.
Samsvarar það um 70,5 milljón króna viðskiptum en heildarvelta með bréf félagsins var tæplega 650 milljónir um hádegisbilið.
Gengi Alvotech hefur nú hækkað um tæp 6% síðastliðinn mánuð en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku hafa fjárfestar dregið örlítið úr skortstöðum sínum í félaginu a sama tíma.
Skortstöður með bréf Alvotech jukust töluvert í vor en fjölmargir fjárfestar þurftu að loka stöðum sínum í kjölfar uppgjörs félagsins í maí sem var umfram væntingar. Þegar fjárfestar lokuðu stöðunum hækkaði gengi Alvotech töluvert í maímánuði.
Fjárfestar voru ekki lengi að bæta aftur í skorstöðurnar sem nær tvöfölduðust í lok maí en þær hafa haldist nokkuð stöðugar síðan þá. Fjöldi skortseldra bréfa Alvotech var um 1,69 milljónir hluta að nafnvirði þann 15. júlí síðastliðinn, samanborið við 1,78 milljónir í lok júnímánaðar.
Markaðsaðilar munu næst beina sjónum að uppgjöri annars ársfjórðungs, sem félagið hyggst birta í ágúst.
Uppgjörið gæti skorið úr um hvort nýlegar skorstöður reynist arðbærar eða hvort fjárfestar verði neyddir til að snúa aftur á kauphlið markaðarins.