Hlutabréf fjárfestingarrisans Berkshire Hathaway hafa lækkað umtalsvert síðustu mánuði, samhliða því sem Warren Buffett, 94 ára, undirbýr starfslok eftir meira en sex áratugi í brúnni.
Lækkunin hefur komið þrátt fyrir sterka rekstrarniðurstöðu félagsins og vaxandi hagnað í lykilstarfsemi þess.
Frá 2. maí, deginum áður en Buffett tilkynnti að Greg Abel myndi taka við sem forstjóri, hafa A-hlutabréf Berkshire lækkað um 14%.
Á sama tímabili hefur S&P 500 hækkað um 11%, að teknu tilliti til arðgreiðslna. Mun þetta vera næstmesti munur á gengi félagsins miðað við vísitöluna á þriggja mánaða tímabili frá árinu 1990.
Verðið á A-hlutabréfum Berkshire fór í maí yfir 812.000 Bandaríkjadali á hlut og hafa þau lengi verið í eigu fjölskyldna sem fjárfestu snemma með Buffett. Ekki er enn ljóst hverjir hafa verið að selja síðustu vikur en skýrslur frá stærstu stofnanafjárfestum birtast síðar í þessum mánuði.
Buffett hefur um áratugaskeið skapað svokallaðan „Buffett-premium“, þ.e. viðbótarvirði í verði hlutabréfa Berkshire sem rekja má til persónulegs trúverðugleika hans sem fjárfestis.
En margir spyrja nú hvort sú viðbót flytjist sjálfkrafa til eftirmannsins.
„Það er ekki sjálfgefið að Greg Abel njóti sama trausts á fyrstu metrunum,“ segir Cathy Seifert, greiningaraðili hjá CFRA. „Þetta gæti verið tímabundið vantraust.“
Þrátt fyrir lækkun bréfa hefur rekstur Berkshire verið traustur.
Samstæðan skilaði 8% meiri rekstrarhagnaði á öðrum ársfjórðungi miðað við árið á undan, án tillits til gengisáhrifa.
Bæði járnbrautarfélagið BNSF og orku- og framleiðslufélögin sýndu vöxt.
Buffett hefur þó í auknum mæli fært fjárfestingar yfir í reiðufé og skuldabréf ríkissjóðs – lausafé samstæðunnar nemur nú 344 milljörðum dala, sem sumir líkja við gullforða Fort Knox.
Verðmat Berkshire hafði einnig hækkað hratt fram að aðalfundi í maí, þá höfðu hlutabréfin hækkað um nær 19% á stuttum tíma og hlutfall markaðsvirðis af bókfærðu eigin fé fór í 1,8x, hæsta hlutfall síðan 2008.
Buffett hætti þó að kaupa eigin bréf í maí, samkvæmt yfirlýsingum um að hann geri það aðeins þegar markaðsverð sé undir „innra virði“ félagsins.
Sumir telja þó líklegt að Buffett grípi aftur til endurkaupa eftir lækkunina.
„Bréfin voru einfaldlega orðin of dýr,“ segir Christopher Bloomstran hjá Semper Augustus Investments, einn af hluthöfum félagsins.