Hlutabréfaverð flugfélagsins Play hækkaði um 6,5% í morgun í örviðskiptum en gengi félagsins stendur í 0,49 krónum þegar þetta er skrifað.
Hlutabréf í flugfélaginu lækkuðu um 23% í gær eftir að Play sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun.
Markaðsvirði félagsins fór jafnframt undir 1 milljarð í fyrsta sinn frá skráningu en það var 870 milljónir við lokun markaða í gær.
Greint var frá því í gærkvöldi að Play hefði sagt upp 27 flugfreyjum og -þjónum. Um 250 manns starfa sem flugfreyjur og -þjónar og uppsögnin samsvarar því 10% af flugþjónum flugfélagsins.
Uppsagnirnar höfðu legið í loftinu vegna breytinga á viðskiptalíkani Play.
Nýtt viðskiptalíkan félagsins felur í sér að fjórar flugvélar muni sinna flugi frá Íslandi, þar sem áhersla verður á framboð til sólarlandastaða og borga sem eru vinsælar meðal Íslendinga.
Hinar sex vélarnar verða hins vegar leigðar í arðbær verkefni til annarra flugrekenda. Play hyggst fljúga undir maltnesku flugrekstrarleyfi og skila inn íslenska flugrekstrarleyfinu.