Hlut­hafa­fundur flug­félagsins Fly Play hf. samþykkti einróma í dag að veita stjórn félagsins heimild til út­gáfu breytan­legra skulda­bréfa að sam­tals há­marki 2.875 milljónum króna.

Tvær að­skildar út­gáfur voru samþykktar. Sam­kvæmt samþykktum fundarins má félagið gefa út:

Breytan­leg skulda­bréf að höfuðstól nema allt að 2.425 milljónum króna.

Breytan­leg skulda­bréf að höfuðstól nema allt að 450 milljónum króna til viðbótar.

Í báðum til­vikum voru til­lögurnar samþykktar af hlut­höfum sem saman­lagt höfðu 100% at­kvæðis­réttar á fundinum.

Hlut­hafar samþykktu jafn­framt að veita stjórn heimild til að hækka hluta­fé félagsins um allt að 4.150 milljónir króna að nafn­verði til að upp­fylla réttindi skulda­bréfa­eig­enda sem nýta um­breytingarrétt sinn. Sam­hliða var samþykkt breyting á samþykktum félagsins í samræmi við þessar ákvarðanir.

Play til­kynnti fyrir mánuði síðan um að félagið hefði tryggt sér áskriftar­lof­orð um kaup fjár­festa á breytan­legu skulda­bréfi að saman­lögðu and­virði 2.425 milljóna króna eða um 20 milljóna dala.

Breytan­legu skulda­bréfin munu bera 17,5% fasta vexti og er gjald­dagi 24 mánuðum eftir út­gáfu­dag.

Engar vaxta­greiðslur fara fram fyrstu 12 mánuði lánstímans, en áfallnir og ógreiddir vextir bætast við höfuðstól á 12 mánaða fresti.

Þar á eftir greiðast vextir mánaðar­lega sem nema helmingi áfallinna vaxta vegna hvers mánaðar.

Stjórn Play segir í greinar­gerð með til­lögum fyrir hlut­hafa­fundinn að fjár­mögnunin sé nauð­syn­leg til þess að styrkja rekstur félagsins í ljósi neikvæðrar rekstrarniður­stöðu síðustu missera.

Þá verður fjár­magni varið í til­fallandi kostnað sem fylgir um­breytingu á rekstrar­módeli félagsins.

Háir vextir vekja at­hygli

Út­gáfa breytan­legra skulda­bréfa Play hefur áður vakið at­hygli á markaði vegna til­tölu­lega hárra vaxta, sem fjár­festar hafa þó verið reiðu­búnir að samþykkja í ljósi vaxta­stigs og áhættu­mats flug­rekstrar.

Samþykktir fundarins gefa félaginu svigrúm til frekari fjár­mögnunar í gegnum slík bréf og mögu­legrar um­breytingar í hluta­fé.