Sameinaða útgáfufélagið, sem gefur út Heimildina og Vísbendingu, hagnaðist um 5,8 milljónir króna eftir skatta á síðasta ári, samanborið við 11 milljóna króna hagnað árið áður. Eigið fé félagsins nam 1,3 milljónum króna í lok síðasta árs, samkvæmt ársreikningi sem var birtur í dag.
Undir lok árs 2024 ákvað stjórn Sameinaða útgáfufélagsins að kaupa fréttavef Mannlífs og fleiri eignir frá Sólartúni ehf. fyrir eina krónu, samhliða því að yfirtaka starfssamninga tveggja blaðamanna.
„Félagið yfirtók sömuleiðis væntan rétt á endurgreiðslum ríkisins á ritstjórnarkostnaði til útgreiðslu 2025 vegna reksturs Mannlífs árið áður, sem áætlaðar höfðu verið 9-10 milljónir króna út frá ritstjórnarkostnaði ársins á undan,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins.
Óvissa um fjölmiðlastyrk
Rekstrartekjur Sameinaða útgáfufélagsins jukust um 3% milli ára og námu 548 milljónum króna í fyrra. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 10,6 milljónum króna, samanborið við 17,7 milljónir árið áður. Ársverk voru 24,4 samanborið við 25,0 árið áður.
Sameinaða útgáfufélagið fékk 67 milljónir króna í fjölmiðlastyrk frá ríkinu í fyrra.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins er bent á að lög um rekstrarstuðning vegna ársins 2024 voru ekki samþykkt á Alþingi fyrir þinglok sumarið 2025, auk þess að eru ekki í gildi nein lög eða reglugerðir um endurgreiðslu á ritstjórnarkostnaði ársins 2025.
„Ekki er því ljóst hvernig rekstrarstuðningi ríkisins við fjölmiðla verður háttað vegna síðasta árs eða komandi ára, ef rekstrarstuðningur að norrænni fyrirmynd verður áfram til staðar. Þessar athafnir eða athafnaleysi löggjafar- og framkvæmdavaldsins framkalla almenna óvissu um rekstrarhorfur og rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og þar á meðal Sameinaða útgáfufélagsins.“
Félagið segir að vegna þessarar óvissu hafi það þurft að grípa til aðhaldsaðgerða í júlí 2025. Félagið sagði upp tveimur blaðamönnum og fækkaði útgáfudögum Heimildarinnar þannig að blaðið komi út mánaðarlega frá og með haustinu.
Auknar skuldir við eigendur
Stjórnin segir skammtímafjármögnun félagsins hafa byggt á veði í komandi styrkjum ríkisins vegna kostnaðar ársins á undan. Það hafi því áhrif á lausafjárstöðu og sjóðstreymi félagsins að engin lög gildi um áður boðaðan ríkisstuðning til einkarekinna fjölmiðla.
Eignir Sameinaða útgáfufélagsins voru bókfærðar á 102 milljónir króna í árslok 2024. Skuldir félagsins námu 100,6 milljónum króna, en þar af var skuld við eigendur 47 milljónir króna. Svo virðist sem eigendur hafi lánað félaginu 37 milljónir króna.
Stærstu hluthafar í árslok 2024
Eignarhlutur |
10,0% |
7,6% |
7,6% |
7,6% |
7,6% |
7,6% |
7,6% |
7,6% |
6,9% |
4,4% |