„Þetta var góð tilfinning - ég neita því ekki," segir Höskuldur Þórhallsson, þegar hann er spurður hvernig hafi verið að vera formaður Framsóknarflokksins - um stund.

Hann atti kappi við Sigmund Davíð Gunnlaugsson í síðari umferð formannskjörsins. Þegar atkvæði höfðu verið talin ruglaðist formaður kjörstjórnar á tölum og lýsti því yfir að Höskuldur væri rétt kjörinn formaður.

Þegar formaður kjörstjórnar hafði lýst þessu yfir fagnaði salurinn með sterku lófaklappi og Höskuldur faðmaði fráfarandi formann, Valgerði Sverrisdóttur, og gerði sig líklegan til að halda sigurræðu.

Á sama tíma kallaði framkvæmdastjóri flokksins á formann kjörstjórnar og þeir fóru út úr salnum. Mikil óvissa ríkti um hríð og fundarmenn fóru að tala um að einhver misskilningur væri á ferðinni. Um fimm mínútum síðar var fundinum tilkynnt að ruglast hefði verið á tölum. Sigmundur Davíð hefði verið kjörinn formaður en ekki Höskuldur.

Sá síðarnefndi segir aðspurður í samtali við Viðskiptablaðið að það hafi vissulega verið vonbrigði að vinna ekki formannsslaginn. „Ég held ég geti samt vel við unað. Mjög margir styðja mig og fullt af fólki lagði gríðarlega mikið á sig til að ég næði árangri." Hann sagði seinna í ræðu á flokksþinginu að hann byði sig ekki fram til varaformennsku.

Formaður kjörstjórnar, Haukur Ingibergsson, sagði síðar af sér embættinu.

(Fréttin var uppfærð kl. 16.20).