Hráolíuverð heldur áfram að hækka. Verð á Brent Norðursjávarolíu er nú komið upp í 106 Bandaríkjadali á tunnu og hefur hækkað um 8% síðan í gær. WTI hráolían er komin upp í 105 dali á tunnu og hefur hækkað um 9% frá því í gær. Verð á hráolíu hefur ekki verið hærra frá árinu 2014.

Rússland er næst stærsta olíuflutningaríki heims, og stærsti jarðgasframleiðandi í heimi. Innrás Rússa í Úkraínu og hinar fjölmörgu viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja á hendur Rússum hafa þannig mikil áhrif á hráolíuverð. Þess má geta að Rússar sjá Evrópu fyrir um þremur milljónum olíutunna á dag, mest allra ríkja.

Sérfræðingar áætla að heimsmarkaðsverð á hráolíu og jarðgasi muni hækka enn frekar á næstu misserum. Innrás Rússa spili þar stórt hlutverk þar sem viðskiptaþvinganirnar hafi dregið verulega úr framboði af hráolíu og jarðgasi.

Samkvæmt grein CNN hafa Bandaríkin og aðrar þjóðir eins og Þýskaland, Bretland, Japan og Suður-Kórea samþykkt að losa 60 milljón olíutunna úr varaforða ríkjanna til að stemma stigu við þessum miklu hráolíuverðshækkunum. Helmingur þeirra, um 30 milljónir tunna, munu koma frá Bandaríkjunum.